Lífið

„Þetta er bara heilög stund“

Elísabet Hanna skrifar
Bergur Ebbi er sífellt að semja uppistandsefni.
Bergur Ebbi er sífellt að semja uppistandsefni. Aðsend.

Uppistandarinn Bergur Ebbi er kominn aftur á svið með uppistandið sitt í Tjarnarbíó þar sem hann hefur sýnt fyrir fullu húsi síðan í mars. Við ræddum við Berg Ebba um tilurð sýningarinnar, en nú eru aðeins örfáar sýningar eftir fyrir sumarfrí.

Hvernig myndir þú lýsa þínum húmor?

Húmor er oftast samofinn persónuleika fólks. Minn persónuleiki er þversagnarkenndur, eins og flestra. Ég tel mig vera vísindalega þenkjandi og er alltaf að leita að svörum við flóknum spurningum, en á sama tíma er ég óþolinmóður og tilbúinn að fórna öllu fyrir augnablikið. Minn húmor byggist soldið á þessu held ég. 

„Ég fer af stað í ferðalag í leit að miklum sannindum, en svo springur allt í loft upp á leiðinni.“

Hvað kom til að þú ákvaðst að hafa uppistand núna?

Ég held hreinlega að ég hafi verið uppfullur af hugmyndum sem fá best notið sín í uppistandi. Stundum er maður fullur af hugmyndum til að skrifa bók, stundum til að gera sjónvarpsþætti en núna er það uppistandið sem kallar.

Bergur EbbiKristófer Helgason

Hvernig nýttir þú síðustu ár til þess að búa til efni?

Ég er sífellt að semja uppistandsefni. Ég punkta hjá mér fréttir og hluti sem ég á erfitt með að melta. Lykillinn að góðu uppistandsefni er einmitt það sem situr í manni. Ef maður heyrir sögu eða sér eitthvað sem maður veit ekki hvað manni á að finnast um, þá er líklegt að það geti verið fyndið fyrir fólk að heyra mann kljást við það.

Við hverju eiga áhorfendur að búast?

Fólk má bara búast við kvöldstund fullri af pælingum frá mér. Mín hugðarefni eru frekar almenn, en samt má segja að ég hafi ákveðin sérsvið. Ég er mjög upptekinn af því hvernig samfélög okkar eru að breytast útaf tækni, hvernig við ráðum varla við hraðann í samfélaginu og hversu klikkuð baráttan um athygli okkar er orðin. 

Allt í kringum mig sé ég fullorðið fólk vera að breytast í gelgjur, stressað yfir hvernig það er klætt, hvað það eigi að borða, hvað það eigi að horfa á, hvert það eigi að ferðast. Ég er ekkert undanskilinn þessu fómói. En auðvitað langar mann stundum að setjast niður og ná smá fókus og þótt ótrúlegt sé þá er uppistand ágætis leið til að gera það. 

Gott að gleyma sér í góðu gríni.Aðsend.

Á uppistandi nær maður stundum að láta fólk detta alveg inn í pælingarnar. Það er enginn í símanum, enginn að hugsa um að vera annars staðar. Þetta er bara heilög stund. En að öllu þessu sögðu er þó óhætt að ætla að þeir áhorfendur sem ég hef fengið eru bara flestir að leita að góðri skemmtun held ég, og auðvitað snýst þetta fyrst og síðast um það.

Hvert er þitt uppáhalds sjónvarpsefni?

Það er sambland af ýmsu en ég er mest í lágmenningunni. Ég horfi á bílavideo á youtube og svo eitthvað sagnfræðirusl og íþróttamistakasyrpur. Á streymisveitunum hef ég verið að horfa á raunveruleikasjónvarpsþætti um innanhúshönnun og ég hef horft á hvern einasta þátt af Heimsókn með Sindra Sindra, en þeir eru að sjálfsögðu hámenning! 

„En svo blundar líka í mér sextugur menningarviti því ég horfi á allt sem Egill Helgason gerir og dýrka til dæmis þætti þar sem hann gengur um í kirkjugörðum og talar um dáið fólk.“

Er skrítið að stíga aftur á svið eftir pásuna sem samfélagið hefur verið í?

Það tók nokkur skipti að venjast því, bæði fyrir mig og líka áhorfendur. En það er mikið fjör og í raun alveg dásamleg tilfinning.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.