Innlent

Sex ára dómur fyrir tilraun til manndráps

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn var ákærður fyrir að hafa veist að eiginkonu sinni á Hótel Borg í janúar í fyrra.
Maðurinn var ákærður fyrir að hafa veist að eiginkonu sinni á Hótel Borg í janúar í fyrra. Vísir/Vilhelm

Landsréttur dæmdi í dag karlmann í sex ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps á Hótel Borg í Reykjavík í lok janúar í fyrra. Landsréttur þyngdi dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafði dæmt karlmanninn í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás á eiginkonu sína.

Karlmaðurinn var ákærður fyrir tilraun til manndráps og stórfellt brot í nánu sambandi. Í ákærunni kom fram að hann hefði veist að eiginkonu sinni á hótelinu, ógnað lífi hennar og velferð með því að stappa ítrekað á hægri hlið líkama hennar.

Konan hlaut mörg rifbrot, mar á lifur, áverkaloftbrjóst, áverkahúðbeðsþembu, mar á lunga og áverkafleðruholsblæðingu að því er fram kom í ákærunni.

Héraðsdómur sakelldi manninn fyrir stórfellda líkamsárás en sýknaði af ákæru fyrir tilraun til manndráps. Landsréttur var á öðru máli, sakfelldi hann fyrir tilraun til manndráps og þyngdi dóminn í sex ára fangelsi.

Í dómi Landsréttar var vísað til þess að hending ein hafi ráðið því að árásin hafi ekki verið lífshættuleg, atlaga hans hafi verið ofsafengin og hún hafi falið í sér síendurtekin högg. Af þeim sökum var lagt til grundvallar að honum hafi ekki getað dulist að bani gæti hlotist af hinni ofsafengnu atlögu sem hann gerði að eiginkonu sinni.

Þá var hann dæmdur til að greiða eiginkonu sinni 2,5 milljónir króna í bætur.

Dómur Landsréttar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×