Fótbolti

Ancelotti skrifaði fótboltasöguna í annað sinn á fimm dögum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Carlo Ancelotti fagnar eftir sigur Real Madrid á Manchester City í gær.
Carlo Ancelotti fagnar eftir sigur Real Madrid á Manchester City í gær. getty/Jose Breton

Á laugardaginn varð Carlo Ancelotti fyrsti knattspyrnustjórinn til að vinna fimm sterkustu deildir Evrópu. Í gær skráði hann sig svo aftur í sögubækurnar.

Real Madrid komst í úrslit Meistaradeildar Evrópu með ótrúlegum 3-1 sigri á Manchester City í framlengdum leik. Madrídingar töpuðu fyrri leiknum í Manchester, 4-3, og lentu 0-1 undir á 73. mínútu í leiknum á Santiago Bernabéu í gær.

En eins og í fyrri leikjum í útsláttarkeppninni gafst Real Madrid ekki upp. Varamaðurinn Rodrygo skoraði tvö mörk á jafn mörgum mínútum undir lokin og því þurfti að framlengja. Þar skoraði Karim Benzema þriðja mark Real Madrid sem tryggði liðinu sæti í úrslitaleiknum.

Þetta er í fimmta sinn sem Ancelotti kemur liði í úrslit Meistaradeildarinnar, eitthvað sem enginn annar hefur afrekað.

Ancelotti kom AC Milan í úrslit Meistaradeildarinnar 2003, 2005 og 2007 og Real Madrid 2014. Lið hans unnu leikina 2003, 2007 og 2014. Ancelotti varð einnig Evrópumeistari sem leikmaður Milan 1989 og 1990.

Real Madrid er þegar búið að vinna Spánarmeistaratitilinn. Auk þess hefur Ancelotti orðið Ítalíu-, Frakklands-, Englands og Þýskalandsmeistari á afar farsælum stjóraferli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×