Fótbolti

Salah bænheyrður: „Þurfum að jafna um sakirnar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mohamed Salah liggur á Ólympíuleikvanginum í Kænugarði eftir viðskipti sín við Sergio Ramos í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 2018.
Mohamed Salah liggur á Ólympíuleikvanginum í Kænugarði eftir viðskipti sín við Sergio Ramos í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 2018. getty/Chris Brunskill

Mohamed Salah varð að ósk sinni að Liverpool myndi mæta Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. Egyptinn er í hefndarhug eftir úrslitaleikinn 2018.

Salah fór meiddur af velli í úrslitaleik Meistaradeildarinnar fyrir fjórum árum. Real Madrid vann þá Liverpool í Kænugarði með þremur mörkum gegn einu.

Eftir að Liverpool vann Villarreal, 2-3, í seinni leik liðanna í undanúrslitunum á þriðjudaginn sagði Salah að hann vildi mæta Real Madrid í úrslitaleiknum í París 28. maí.

Salah var því hæstánægður þegar Real Madrid komst í úrslitaleikinn með endurkomusigri á Manchester City, 3-1, í gær.

„Við þurfum að jafna um sakirnar,“ skrifaði Salah á Twitter eftir leikinn á Santiago Bernabéu.

Salah fór í axlarlið í úrslitaleiknum gegn Real Madrid 2018 eftir baráttu við Sergio Ramos, þáverandi fyrirliða Madrídarliðsins, og neyddist til að yfirgefa völlinn í fyrri hálfleik. Staðan að honum loknum var markalaus en Real Madrid skoraði þrjú mörk í seinni hálfleik gegn einu marki Liverpool.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.