Innlent

Segir borgina ekki fá Skerjafjörð, hún verði að virða samkomulag

Kristján Már Unnarsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra á Reykjavíkurflugvelli í morgun en hann var að koma úr flugi frá Egilsstöðum. Fyrir aftan má sjá svæðið umdeilda í Skerjafirði.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra á Reykjavíkurflugvelli í morgun en hann var að koma úr flugi frá Egilsstöðum. Fyrir aftan má sjá svæðið umdeilda í Skerjafirði. Ívar Fannar Arnarsson

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir að Reykjavíkurborg fái ekki flugvallarland í Skerjafirði til íbúðabygginga meðan annar jafngóður eða betri kostur undir flugvöll er ekki uppbyggður. Ráðherrann segir leiðinlegt að þurfa ítrekað að slá á puttana á borgarstjórnarmeirihlutanum en borgin verði að virða tveggja ára gamalt flugvallarsamkomulag.

Þetta kom fram í viðtali sem tekið var við ráðherrann á Reykjavíkurflugvelli í morgun, sem útvarpað var í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Ráðamenn Isavia hafa lýst áhyggjum um að nýtt íbúðahverfi í Skerjafirði skerði rekstraröryggi flugvallarins vegna sviptivinda sem skapist frá nýjum byggingum nærri flugbrautum. Ráðamenn Reykjavíkurborgar hafa lýst sig ósammála því mati og vilja hefja framkvæmdir í sumar. Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi kom fram að Isavia hefur núna ítrekað áhyggjur sínar.

„Við tókum undir þessar áhyggjur þeirra og báðum Reykjavíkurborg um viðbrögð. Og ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst eiginlega leiðinlegt að það þurfi að slá á puttana á meirihlutanum í Reykjavík aftur og aftur út af þessu,“ segir Sigurður Ingi.

Hann minnir á flugvallarsamkomulagið sem gert var milli ríkis og borgar í nóvember 2019.

Frá undirritun flugvallarsamkomulagsins í nóvember árið 2019.Vilhelm Gunnarsson

„Í minni sveit virða menn slíkt samkomulag og ég ætlast til þess að Reykjavíkurborg virði það,“ segir ráðherrann.

Samkomulagið hafi ekki verið gert að ástæðulausu. Þetta snúi að flugöryggi og rekstrarmöguleika, bæði innanlandsflugs og einnig varaflugvallar millilandaflugs.

„Meðan annar kostur, jafngóður eða betri, er hvorki fundinn né uppbyggður þá felst samkomulagið í því að þessi völlur hér, sem við stöndum á, eigi að vera í óbreyttri, rekstrarlega og öryggislega, mynd. Og það er hann ekki, að mati Isavia og þeirra ráðgjafa, ef að þessar byggingar fara af stað hér í Skerjafirði.“

Séð yfir svæðið í Skerjafirði sem borgin er búin að skipuleggja undir íbúðabyggð.Reykjavíkurborg

-Þannig að Reykjavíkurborg fær þetta svæði, Nýja Skerjafjörð, ekki til uppbyggingar í sumar?

„Nei, það getur ekki gerst að óbreyttu. Og ég hef ekki séð þær mótvægisaðgerðir sem hægt sé að benda á.“

-En þýðir þetta að þú munt leggjast þá gegn því að frekara land verði tekið af flugvellinum þangað til nýr flugvöllur er kominn?

„Samkomulagið sneri um það. Og eins og ég segi: Í minni sveit virða menn samkomulög,“ svarar ráðherra flugmála, Sigurður Ingi Jóhannsson. 

Viðtalið má sjá hér:


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×