Innlent

Ólafur Ólafs­son er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Ólafur Ólafsson á fundi Beinverndar árið 2017. Ólafur var einn af aðalhvatamönnum stofnunar Beinverndar, landssamtaka áhugafólks um beinþynning.
Ólafur Ólafsson á fundi Beinverndar árið 2017. Ólafur var einn af aðalhvatamönnum stofnunar Beinverndar, landssamtaka áhugafólks um beinþynning. Beinvernd

Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir, er látinn, 93 ára að aldri.

Greint er frá andlátinu í Morgunblaðinu í dag, en Ólafur lést í gær.

Ólafur fæddist í Brautarholti á Kjalarnesi þann 11. nóvember 1928. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1948 og kandidatsprófi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1957. Hann stundaði svo framhaldsnám í Svíþjóð, Danmörku og Bretlandi og var sérfræðingur í lyflækningum, hjartasjúkdómum, farsóttum og embættislækningum.

Eftir að hafa starfað hjá Karolinska í Stokkhólmi í Svíþjóð fluttist hann heim árið 1967 og varð þá fyrsti forstöðumaður Rannsóknarstöðvar Hjartaverndar. Hann tók svo við embætti landlæknis árið 1972 og gegndi stöðunni til ársins 1998.

Ólafur var einnig virkur í félagsstörfum og gegndi meðal annars stöðu formanns Félags eldri borgara á árunum 2003 til 2005. Hann var sæmdur stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1998 og varð heiðursfélagi í Læknafélagi Íslands sama ár.

Ólafur giftist Ingu-Lill Marianne árið 1961 og eignuðust þau fimm börn. Inga-Lill lést árið 2013. Eru barnabörnin þeirra orðin sautján og barnabarnabörnin níu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×