Að sögn embættisins helgast sú afstaða meðal annars af því að Ríkisendurskoðun hafi fallist á beiðni Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra um að gera úttekt á útboðinu á hlutum ríkisins. Þá hafi fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hafið rannsókn á tilgreindum þáttum sölunnar.
„Ennfremur hefur komið fram í fjölmiðlum að Alþingi kunni sjálft að hlutast til um rannsókn málsins með skipun sérstakrar rannsóknarnefndar þegar úttekt Ríkisendurskoðunar liggur fyrir,“ segir á vef Umboðsmanns Alþingis.
Varði ekki hagsmuni viðkomandi
Kvartanirnar þrjár beinast að fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Bankasýslu ríkisins en sömuleiðis sneri ein þeirra að störfum Alþingis. Í einni þeirra gerði aðili athugasemdir við hafa ekki fengið tækifæri til að taka þátt í útboðinu á hlutum í Íslandsbanka sem fram fór í mars síðastliðnum.
Í annarri kvörtun var gerð athugasemd við framsals ákvörðunarvalds fjármála- og efnahagsráðherra til Bankasýslu ríkisins um hvort samþykkja ætti tilboð í eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka en sá kvartandi var ekki á meðal þátttakenda í útboðinu.
Í öllum þremur tilvikum er það mat Umboðsmanns Alþingis að kvartanirnar varði ekki beinlínis hagsmuni viðkomandi eða réttindi umfram aðra. Því séu ekki forsendur til að taka kvartanirnar til nánari athugunar hjá embættinu.