Innlent

Hrakfallasaga Íslandsbanka frá hruni til útboðs

Gríðarleg gagnrýni hefur komið fram á sölu ríkisins á Íslandsbanka til svokallaðra hæfra fjárfesta í síðasta mánuði. En um hvað er deilt og hvað gerðist? 

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Gríðarlega margir koma að sölu Íslandsbanka með einum eða öðrum hætti sem kaupendur eða seljendur eða sáu um framkvæmd sölunnar. Gríðarleg gagnrýni hefur komið fram um söluna, hér verður málið reifað í stórum dráttum. Vísir

Gríðarleg gagnrýni hefur komið fram á sölu ríkisins á Íslandsbanka til svokallaðra hæfra fjárfesta í síðasta mánuði. En um hvað er deilt og hvað gerðist? 

Forsagan

Málið byrjar í raun í bankahruninu árið 2008 þegar Glitnir forveri Íslandsbanka varð gjaldþrota ásamt Kaupþingi og Landsbankanum, ríkið tók þá yfir og neyðarlög voru sett.  Kröfuhafar bankanna tóku þá yfir en árið 2015 eignaðist ríkið Íslandsbanka vegna stöðuleikaframlags þeirra.

Rannsóknarnefnd Alþingis skilaði síðar af sér mörg hundruð blaðsíðna skýrslu um ástæður hrunsins þar sem gríðarleg mistök við og eftir einkavæðingu bankanna, vanræksla og mistök voru tíunduð, ásamt mörgu öðru.

Bankasýsla ríkisins var svo stofnuð 2009 og hafði það hlutverk að fara með hlutverk ríkisins í fjármálafyrirtækjum í samræmi við lög og reglur. 

2012 eru sett lög um sölu ríkisins í bönkunum þar fram kemur hvert hlutverk fjármálaráðherra og Bankasýslu á að vera.

Ákvörðun um sölu og almennt útboð

Núverandi ríkisstjórn ákvað að selja bankann þegar markaðsaðstæður leyfðu og á síðasta ári var ákveðið almennt útboð á 35% hlut ríkisins í bankanum þar sem allir gátu keypt og hann var svo skráður í Kauphöll.

Almenn ánægja var með söluna en þó kom fram gagnrýni á að hlutabréfin hefðu verið seld of ódýrt því þau hafa hækkað mikið frá þeirri sölu og ríkið þar með fengið minna en ella fyrir söluna.

Ákvörðun um næstu sölu

Í janúar á þessu ári lagði svo Bankasýslan til við fjármálaráðherra að meira yrði selt í bankanum og kynnti þrjár söluleiðir en mælti með svokölluðu tilboðsfyrirkomulagi sem fæli í sér að hæfir fjárfestar myndu aðeins fá að kaupa um 22,5% en þátttaka lífeyrissjóða og verðbréfasjóða í slíku útboði myndi þó alltaf tryggja aðkomu almennings. Ráðherrann samþykkti svo þá leið.

Í tillögu Bankasýslunnar kemur fram að ráðherra muni ávallt eiga endanlega ákvörðun um sölu í hvert og eitt skipti samanber 4. gr. laga um sölumeðferðina.

Bankasýsla ríkisins heldur svo þann 4. febrúar hkynningu fyrir ráðherranefnd um efnahagsmál um tillöguna en viðskiptaráðherra sagði svo síðar að á slíkum fundi hefði hún komið mótbárum á framfæri um söluna og endanleg ábyrgð á henni væri á höndum viðkomandi ráðherra.

Bankasýslan kynnir tillöguna líka fyrir fjárlaganefnd og efnahags-og viðskiptanefnd Alþingis.

Salan og gagnrýnin hefst

Það er svo 22. mars sem sala á ríflega fjórðungs hlut ríkisins fer fram fyrir hæfa fjárfesta í lokuðu útboði.

Fjárfestarnir fengu fjögurra prósenta afslátt frá markaðsverði þann dag.

Ráðgjafar Bankasýsluna við söluna eru ellefu og samanlagt hljóðar reikningur þeirra upp á 700 milljónir króna.

Verðið gagnrýnt

„Það sem mestu máli skiptir er að þarna er verið að selja eigur ríkissjóðs á undirverði það er prinsippið, það er spillingin.“

  Þetta sagði Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR 23. mars í fréttum.

Á Alþingi er tekist á um söluna.

„Þrátt fyrir gríðarlega umfram eftirspurn þá var veittur 2,25 milljarða króna afsláttur. Við erum enn þá í þoku með hverjir kaupendur eru,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingar á Alþingi 23. mars.

„En við fengum bæði í fyrra og í nýafstöðnu útboði mjög gott verð. Mjög gott verð. Vorum við að fá fjárfesta sem vildu halda hlutnum til lengri tíma til dæmis? Ég segi já við öllum þessum spurningum,“ svaraði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi sama dag.

Fleiri gerðu athugasemdir við verðið. Þannig sögðu höfundar rannsóknarskýrslu Alþingis að með því að hafa ekki fengið hæsta verð fyrir hlutinn hafi lög um bankasölu verið brotin.

Þessu var meðal annars svarað á þá leið að þetta væri mun minni afsláttur en í sambærilegum útboðum.

Kaupendur gagnrýndir

Ríkisstjórnin ákvað svo þann 7. apríl  að birta lista í trássi við Bankasýsluna yfir þá sem fengu að kaupa.

Á listanum kom fram að góðkunningjar úr bankahruninu, söluaðilar útboðsins, starfsmenn lífeyrissjóða, faðir fjármálaráðherra og eiginmaður framkvæmdastjóra þingflokks Vinstri grænna, voru meðal hæfra kaupenda.

Þá hafði þegar komið fram  að hlutur lífeyrissjóða hafði verið skertur um 60% vegna mikillar eftirspurnar annarra fjárfesta

Fjármálaráðherra sagðist ekki hafa vitað af kaupum föður síns.

„Það hvarflaði ekki að mér að það myndi gerast í þetta skipti‘,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í fréttum 8. apríl.

„Það er augljóst að eftir framkvæmd þessa útboðs er staðan ekki sú sem við helst óskuðum.“

 Þetta sagði fjármálaráðherra um útboðið 8. apríl.

Stjórn og forstjóri Bankasýslunnar fóru yfir það sem hefði mátt fara betur.

„Það gæti verið óheppilegt að seljendur í útboðinu hafi líka keypt en út frá þessum upplýsingum get ég ekki sagt að það hafi verið ólögmætt eða ekki heimilt,“ sagði Lárus Blöndal formaður stjórnar Bankasýslu ríkisins í fréttum 7. apríl.

Jón Gunnar Jónsson forstjóri Bankasýslunnar sem starfaði um tíma á alþjóðlegum verðbréfamörkuðum gerði athugasemdir.

„Ég starfaði um tíma á slíkum mörkuðum og þá kom aldrei nokkurn tíma til greina að starfsmaður tæki þátt í útboði á sama tíma og fyrirtækið sem hann starfaði hjá sæi um einhvers konar ráðgjöf eða sölu á hlutafé þess.“ 

Þetta sagði Jón Gunnar í fréttum okkar 13. apríl og hélt áfram:

„Þannig að ég yrði fyrir miklum vonbrigðum ef það er svo niðurstaðan í þessu útboði. Ef þeir sem standa að útboðinu og eru nálægt útboðsferlinu, eru að eiga viðskipti í bankanum á sama tíma þá veldur það mjög miklum hagsmunaárekstrum að mínu viti gagnvart viðskiptavinum þess.“ 

Stjórnarþingmenn úr nefndum sem höfðu fengið kynningu um tilboðsfyrirkomulagið fyrir söluna kvörtuðu yfir því að hafa ekki vitað allt.

„Ég stóð í þeirri meiningu að við værum fyrst og fremst að leita að stórum og öflugum fjárfestum sem ætluðu að vera þarna til lengri tíma,“ sagði Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokks í fjárlaganefnd á Alþingi 8. apríl

Úttektir og mótmæli

Stjórnvöld ákváðu að Ríkisendurskoðun færi yfir framkvæmd sölunnar en stjórnarandstaðan vildi meira.

„Þetta er slíkt fádæma klúður. Það er augljóst að setja á fót rannsóknarnefnd Alþingis sem mun hafa víðtækari heimildir en ríkisendurskoðandi hefur,“ Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingar á Alþingi 8. Apríl.

Sölunni var mótmælt á Austurvelli og í annað sinn kom fram skýr krafa um að fjármálaráðherra viki úr embætti.

Stjórnarþingmenn kölluðu hins vegar eftir því að Bankasýslan væri látin víkja.

„Það væri auðveldara að endurheimta traust ef framkvæmdastjóri Bankasýslu og stjórn vikju,“ sagði Bjarna Jónsson í fréttum 10. apríl.

Bankasýslan tilkynnti svo sjálf að 34 fjárfestar sem keyptu um fjórðungshlut í útboðinu væru búnir að selja að hluta og stór hluti fjárfesta hefði mögulega tekið lán fyrir hluta af kaupunum.

Lífeyrissjóðir sem höfðu verið skertir voru ekki á eitt sáttir.

Fjármálaeftirlitið ákvað svo að hefja sjálfstæða  athugun á tilteknum þáttum sölunnar þann 11. apríl. En meðal þess sem stofnunin er að kanna er hvort allir þeir sem keyptu séu sannarlega hæfir fjárfestar og fjárfestingar söluaðila í útboðinu. 

Ætla að leggja Bankasýslu niður

Ekkert heyrðist frá stjórnarheimilinu um páska en formenn flokkanna komu með trukki til baka eftir þá  og höfðu ákveðið að leggja niður Bankasýsluna, málið yrði afgreitt á Alþingi.

„Mér finnst alveg ljóst að þessi markmið ekki síst um gagnsæið og um upplýsingagjöfina hafa ekki gengið eftir hjá stofnuninni, “ sagði Katrín Jakobsdóttir í fréttum um ástæður þess að Bankasýslan yrði lögð niður.

Innt eftir kröfunni sem þarna var komin fram um að fjármálaráðherra þyrfti að víkja sagði hún:

„Nei mér finnst einmitt eðlilegt að við sjáum niðurstöður úttekta þegar þær liggja fyrir. Og hvort það þurfi að skipa rannsóknarnefnd um söluna. Auðvitað þegar heildamyndin er komin þá auðvitað vakna líka siðferðispurningar og það er það sem maður skynjar hjá almenningi í landinu. “

Stjórnarandstaðan vildi að ríkistjórn kæmi fyrr saman vegna málsins og komst Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar svona að orði þegar hann var spurður út í málið af fréttastofu 19. apríl.

„Ríkisstjórnin er búin að gefa það út að þetta útboð gekk svo illa að það þarf að slátra heilli ríkisstofnun. Ábyrgðin endar ekki þar.“ 

Bankasýslan sendi frá sér tilkynningu um að allt hefði verið gert rétt af sinni hálfu hins vegar myndi stofnunin halda eftir söluþóknun til ráðgjafanna þar til búið væri að fara yfir hvort þeir hefðu óhreint mjög í pokahorninu.

Fyrrverandi fjármálaráðherra sakar fjármálaráðherra um lögbrot

Fyrrverandi fjármálaráðherra sakaði svo fjármálaráðherra um að hafa brotið lögin sem voru sett um sölu bankanna 2012, hann hafi átt að skrifa undir hvert og eitt einasta tilboð sem barst.

„Ef það er rétt sem að ráðherrann sjálfur segir að hann hafi ekkert vitað þá hefur hann brotið lög og það er stórkostlegt gáleysi,“ sagði Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingar og fyrrum fjármálaráðherra í fréttum 20. apríl.

Bjarni vísaði þessu alfarið á bug með greinagerð með frumvarpinu kæmi fram að Bankasýslan hefði átt að gera það, enda væri fáránlegt að hann væri að fara yfir hvert og eitt einasta tilboð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×