Fótbolti

„Kröftugt högg á trýnið og vantar annan skóinn“

Sindri Sverrisson skrifar
Alfons Sampsted var að vanda í liði Bodö/Glimt í gær en endaði með ljótt glóðarauga.
Alfons Sampsted var að vanda í liði Bodö/Glimt í gær en endaði með ljótt glóðarauga. Getty/@alfonssampsted

Alfons Sampsted fékk olnbogaskot í andlitið í úrslitaleik norsku bikarkeppninnar í fótbolta í gær. Hann fékk myndarlegt glóðarauga en segist ekki koma til með að missa af mínútu með Bodö/Glimt.

Bodö/Glimt mætti Molde í úrslitaleiknum í gær og mátti þola 1-0 tap og endaði því með silfurverðlaun í bikarnum, eftir að hafa orðið Noregsmeistari annað árið í röð í desember.

Alfons fékk olnbogaskotið þegar hann var að verjast hornspyrnu Molde á 26. mínútu leiksins. Hann lá eftir á vellinum og fékk aðhlynningu læknis Bodö/Glit en hélt áfram leik.

„Ég horfði bara á boltann. Það næsta sem gerist er að ég fæ kröftugt högg á trýnið og vantar annan skóinn. Ég á eftir að horfa á þetta aftur,“ sagði Alfons við NTB.

„Mér líður ágætlega. Þetta er svolítið aumt og ég er með svolítinn höfuðverk en ég hef ekki sérstakar áhyggjur af þessu,“ sagði Alfons.

Alfons kláraði leikinn en náði ekki að koma í veg fyrir sigur Molde sem vann með vítaspyrnumarki Sivert Mannsverk korteri fyrir leikslok. Næsti leikur Bodö/Glimt er gegn Lilleström á sunnudaginn og Alfons ætlar að spila þann leik.

„Ég spurði lækninn og hann sagði að það tæki um það bil 14 daga að losna við glóðaraugað. Hann sagði að það væri engin hætta varðandi næsta leik,“ sagði Alfons.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×