Innlent

Sér­sveitin hafði af­skipti af dreng sem reyndist ó­vopnaður

Árni Sæberg skrifar
Á myndbandinu sést vopnuð sérsveit hafa afskipti af ungum manni í miðbænum.
Á myndbandinu sést vopnuð sérsveit hafa afskipti af ungum manni í miðbænum. Vísir/Vilhelm

Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð út á fimmta tímanum í nótt eftir að tilkynning um vopnaðan mann í miðborginni barst lögreglu. Sá reyndist ekki aðeins vopnlaus með öllu heldur einnig undir átján ára aldri.

Að því er segir í tilkynningu frá lögreglu sagðist tilkynnandi hafa heyrt af tali tveggja manna, sem virtust hafa átt í einhverjum útistöðum, að annar þeirra væri vopnaður. Hann hafi skilið orðskipti þeirra sem að um skotvopn væri að ræða.

Vegfarandinn hafi getað gefið greinargóða lýsingu á manninum sem átti að hafa vopnið undir höndum. Því hafi verið brugðist strax við samkvæmt verklagi, en í því felist meðal annars að kalla til vakthafandi lögreglumenn hjá sérsveit ríkislögreglustjóra.

Lögregla hafi fljótt haft uppi á manninum sem leitað var og höfðu sérsveitarmenn afskipti af honum. Fljótlega kom í ljós að hann væri vopnlaus en í samtali við lögreglu viðurkenndi maðurinn að hafa látið þessi orð falla um vopnaburð í samskiptum við annan mann skömmu áður.

Enginn var handtekinn vegna málsins en haft var samband við foreldra drengsins þar sem hann hefur ekki náð átján ára aldri.

Ekki rétt að skotvopni hafi verið otað að drengnum

Í tilkynningu lögreglu segir að í einum fjölmiðli hafi verið fjallað um málið og vikið að vopnburði annars sérsveitarmannsins. DV fjallaði um málið í hádeginu og sagði sérsveitarmann hafa miðað skotvopni að drengnum.

„Til upplýsinga skal tekið fram að um svokallaða höggboltabyssu er að ræða, en hún er í sama valdbeitingarstigi og lögreglukylfa,“ segir í tilkynningu lögreglu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×