Innlent

Lilli klifurmús og Mikki refur á Sólheimum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Mikki refur og Marteinn skógarmús, sem leiknir eru af bræðrunum Kristjáni Atla (t.v.) og Sigtryggi Einari.
Mikki refur og Marteinn skógarmús, sem leiknir eru af bræðrunum Kristjáni Atla (t.v.) og Sigtryggi Einari. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Lilli klifurmús og Mikki refur eru allt í öllu á Sólheimum í Grímsnesi þessa dagana, ásamt öðrum dýrum úr Dýrunum í Hálsaskógi. Mikil stemming er á leikritinu enda standa leikararnir sig eins og hetjur á sviðinu.

Leikfélag Sólheima er öflugt leikfélag þar sem fatlaðir og ófatlaðir íbúar á staðnum taka þátt í sýningunum þess þar sem gleðin er alltaf við völd. Nú er það Dýrin í Hálsaskógi.

„Þetta er bara mjög skemmtileg fjölskyldusýning þar sem allir fá tækifæri til að taka þátt hver með sínu nefi. Við erum bara ansi magnað leikfélag, búin að vera starfandi, sem eitt elsta áhugaleikfélag landsins, setjum upp sýningu á hverju ári, alltaf frumsýnt á sumardaginn fyrsta,“ segir Dagný Davíðsdóttir, formaður leikfélagsins.

Dagný Davíðsdóttir, formaður leikfélagsins á Sólheimum en hún tekur að sjálfsögðu þátt í sýningunni.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Bræður leika Martein skógarmús og Mikka ref. Þeir segjast báðir vera mjög góðir leikarar.

„Alveg voðalega, mjög svo,“ segir Kristján Atli, sem leikur Mikka ref.

„Ég er hræddur um það,“ bætir Sigtryggur Einar við en hann leikur Martein skógarmús. Bræðurnir eru Sævarssynir.

Og hvernig er Mikki refur, hvað gerir hann?

„Hann læðist um á milli runnanna og étur hvern þann, sem verður í vegi fyrir honum,“ segir Mikki refur og Marteinn bætir við; „Og ég finn alltaf góðar hugmyndir og sem lög um hvernig dýrin eiga að haga sér,“ segir Marteinn.

Nokkrir hressir krakkar taka líka þátt í sýningunni, sem þau segja mjög skemmtilegt. Þau hvetja, sem flesta að koma á Sólheima á sýninguna.

Næstu sýningar eru um næstu helgi, 30. apríl og 1. maí

Hægt er að kaupa miða hér

Nokkrir hressir og skemmtilegir krakkar taka þátt í sýningunni. Þau hvetja, sem flesta til að mæta á sýninguna á Sólheimum.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×