Lögreglan lýsti eftir Gabríel í gærkvöldi. Kom fram í gær að þegar var verið að flytja hann eftir aðalmeðferð í máli hans, sleit hann sig lausan frá lögreglu.
Gabríel var ákærður, ásamt fjórum öðrum, fyrir að hafa þann 18. júlí síðastliðinn, veist að einstaklingi við Kjarvalsstaði í Reykjavík.
Fréttastofa hefur ákæruna í málinu undir höndum. Er Gabríel og félögum hans fjórum gefið að sök að hafa hótað honum líkamsmeiðingum og lífláti. Fréttablaðið greindi fyrst frá.
Þá er þeim einnig gefið að sök að hafa fengið manninn til að opna fyrir aðgang að heimabanka hans og neytt hann til að millifæra alls 892 þúsund krónur í þremur millifærslum inn á bankareikning í eigu Gabríels.
Aðalmeðferð málsins fór fram í gær og slapp Gabríel úr haldi eftir að henni lauk, eins og fyrr segir.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu, sem vill annars litlar upplýsignar um málið gefa, er Gabríel ófundinn. Greint hefur verið frá því að hann hafi verið virkur á samfélagsmiðlinum Instagram eftir að hann slapp og meðal annars merkt staðsetningu sína í Vesturbæ Reykjavíkur í myndbandi í hringrás Instagram-síðu hans.
Biðla til Gabríels að gefa sig fram strax
Að því er kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni er Gabríel 192 sentímetrar á hæð, með brún augu og um 85 kíló að þyngd. Hann er klæddur í hvíta hettupeysu, gallabuxur og hvíta skó.
Lögregla biðlar til þeirra sem geta gefið upplýsingar um ferðir Gabríels eða vita hvar hann er niðurkominn að hafa tafarlaust samband við 112.
Þá er Gabríel sjálfur hvattur til að gefa sig strax fram.