Innlent

Leita að gæsluvarðhaldsfanga sem slapp úr haldi lögreglu

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Maðurinn sleit sig lausan úr haldi lögreglu við Héraðsdóm Reykjavíkur í dag. 
Maðurinn sleit sig lausan úr haldi lögreglu við Héraðsdóm Reykjavíkur í dag.  Vísir/Vilhelm

Yfirvöld leita nú að Gabríel Douane Boama, tvítugum gæsluvarðhaldsfanga sem slapp úr haldi lögreglu við Héraðsdóm Reykjavíkur um sjö leytið dag. Lögregla hefur lýst eftir honum og segir mikilvægt að hann finnist sem fyrst. 

Sveinn Ingiberg Magnússon yfirlögregluþjónn staðfestir í samtali við fréttastofu að Gabríel hafi flúið úr haldi lögreglu en RÚV greindi fyrst frá málinu. Verið var að flytja hann eftir aðalmeðferð í máli hans þegar hann sleit sig lausan frá lögreglu. 

Aðspurður um hvort óttast sé að Gabríel sé ofbeldisfullur segir Sveinn að hann sé vissulega ákærður fyrir ofbeldisbrot en að ekki liggi fyrir hvað hann ætli sér nú. 

Búið er að lýsa eftir honum innan lögreglunnar og hafa lögregluþjónar á vakt verið látnir vita. Sveinn segir mikilvægt að Gabríel finnist sem allra fyrst en leit stendur nú yfir. 

Lögreglan lýsti eftir Gabríel í kvöld. Mynd/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Tengist árásinni í Borgarholtsskóla í fyrra

Aðalmeðferð fór fram í tveimur málum í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, þar af í máli héraðssaksóknara gegn fimm sakborningum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu tengist málið sem um ræðir meðal annars árás í Borgarholtsskóla í janúar 2021 þar sem aðilar komu vopnaðir inn í skólann.

Í kjölfarið brutust út slagsmál meðal drengja með þeim afleiðingum að sex voru fluttir á bráðamóttöku. Þrír piltar á aldrinum 16 til 19 ára voru handteknir vegna árásarinnar.

Uppfært 22:58:

Lögregla hefur formlega lýst eftir fanganum, hinum tvítuga Gabríel Douane Boama. Hann er að sögn lögreglu 192 sentímetrar á hæð, með brún augu og um 85 kíló að þyngd. Hann er klæddur í hvíta hettupeysu, gallabuxur og hvíta skó.


Tengdar fréttir

Sex fluttir á slysadeild eftir árás í Borgarholtsskóla

Sex voru fluttir á slysadeild á öðrum tímanum í dag eftir að árás var gerð í Borgarholtsskóla. Þetta staðfestir varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í samtali við Vísi. Einn var leiddur út úr skólanum í járnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×