Innlent

Félagsmenn foxillir eftir tölvupóst Sólveigar Önnu

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir og Ólöf Helga Adolfsdóttir vildu báðar formannssætið í Eflingu. Sólveig Anna hafði betur.
Sólveig Anna Jónsdóttir og Ólöf Helga Adolfsdóttir vildu báðar formannssætið í Eflingu. Sólveig Anna hafði betur. Vísir/Vilhelm

Stjórn Eflingar hyggst ræða kröfur fimm hundruð félagsmanna um að halda félagsfund. Tölvupóstur frá formanni félagsins hefur vakið reiði félagsmanna og segir varaformaður Eflingar formanninn vera að eyðileggja starf verkalýðshreyfingarinnar. Forsvarsmenn félagsins urðu ekki við beiðni um viðtal í morgun.

„Við undirrituð, félagsmenn í Eflingu-stéttarfélagi, krefjumst þess að haldinn verði félagsfundur föstudaginn 22. apríl kl. 17:00,” segir kröfubréf félagsmanna með um fimm hundruð undirskriftum. Á fundinum á að ræða ákvörðun stjórnar Eflingar um hópuppsögn á skrifstofunni og svo önnur mál. Samkvæmt heimildum fréttastofu stendur til að leggja fram vantrauststillögu á Sólveigu Önnu Jónsdóttur formann á fundinum. Undirskriftarlistinn var afhentur stjórninni í gær. Samkvæmt lögum Eflingar þyrfti helst að auglýsa félagsfund þremur dögum áður en hann er haldinn, sem er þá í dag. Sólveig Anna sendi félagsmönnum tölvupóst í gær þar sem fundurinn er meðal annars til umræðu. Þar segir hún að stjórnin muni koma saman til að taka ákvörðun um boðun og tímasetningu fundarins og biður félagsmenn að fylgjast með.

Hefur ekki trú á fundi á föstudag

Agnieszka Ewa Ziólkowska, varaformaður Eflingar, segir í samtali við fréttastofu að hún efist stórlega um að stjórnin verði við kröfu félagsmannanna. Hún er mjög harðorð í garð Sólveigar Önnu og segir félagsmenn eiga skilið að fá útskýringar á fordæmalausri hópuppsögn starfsmanna Eflingar. Hún býst fastlega við því að Sólveig Anna fresti fundinum og gagnrýnir hana harðlega fyrir ákvarðanir hennar undanfarið.  

„Hún er að eyðileggja verkalýðshreyfinguna og allt starf sem þar hefur verið unnið síðustu tvö ár.” 

„Starfsfólk Eflingar mætti upp til hópa ekki til vinnu í dag”

Í pósti Sólveigar segir líka starfsfólk Eflingar hafi upp til hópa ekki mætt til vinnu í gær, en hægt verði að halda móttöku og skrifstofu Eflingar opinni og sinna grunnþjónustu með þeim örfáu starfsmönnum sem þó mæta.

Vilja ekki veita viðtal

Fréttastofa reyndi að fá viðtal við Sólveigu Önnu í morgun, en við því var ekki orðið. Sömuleiðis vildi Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri, ekki veita viðtal, og heldur ekki ritarinn Ólöf Helga Adolfsdóttir.

Póstar ekki lengur sendir á pólsku

Einhverjir fyrrverandi starfsmenn Eflingar deildu tölvupóstinum á Facebook í dag, meðal annars Vala Árnadóttir. Hún fer hörðum orðum um aðgerðir stjórnarinnar og segir þau ekki bera virðingu fyrir því áfalli sem starfsfólk varð fyrir í síðustu viku þegar öllum var sagt upp. Þá gagnrýnir Vala orðalagið í póstinum og segir það uppfullt af vanvirðingu, en undirstrikar að allir tölvupóstar til félagsmanna hafi síðustu fjögur ár líka verið sendir á pólsku, þar sem þriðjungur eru pólskir. Hins vegar hafi ný stjórn sent síðustu tvo pósta til félagsmanna einungis á íslensku og ensku og það sé einkennileg afturför.




Tengdar fréttir

Vantrauststillaga mögulega til umræðu á félagsfundi Eflingar

Félagsmenn Eflingar hafa safnað hátt í 500 undirskriftum þar sem þess er krafist að kallað verði til félagsfundar. Samkvæmt heimildum fréttastofu stendur til að greiða atkvæði um vantrauststillögu á Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, á fundinum.

For­ysta sem virðir Eflingar­fé­laga fær virðingu til baka

Ég heiti Magnús Freyr Magnússon og er félagsmaður í Eflingu. Ég er svokallaður „starfsmaður 2 með stuðning” og vinn á leikskóla. Ég brenn fyrir verkalýðsmálum og trúi á lýðræði. Ég er jafnréttissinnaður baráttumaður í húð og hár og ég stend við orð mín undir nafni.

Snúnar kjara­við­ræður fram undan eftir hóp­upp­sögn Eflingar

Fyrr­verandi fé­lags­mála­ráð­herra og fram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífsins telur ein­sýnt að hóp­upp­sagnir innan Eflingar muni hafa mikil á­hrif á kjara­við­ræður í haust. Hann furðar sig á for­ystu verka­lýðs­hreyfingarinnar.

Um­ræðan van­stillt og byggð á röngum upp­lýsingum

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar sendi í dag tölvupóst á félagsmenn stéttarfélagsins þar sem hún gagnrýnir umræðu um stéttarfélagið harðlega. Hún segir umræðuna hafa oft og tíðum verið vanstillta og byggða á röngum eða ófullkomnum upplýsingum.

Á­kveðinn hópur út­skúfaður og ljóst hverjir eiga að halda starfi sínu

Starfsmenn Eflingar eru enn í miklu áfalli eftir að þeim var öllum sagt upp í byrjun vikunnar. Auglýst var eftir nýju starfsfólki í morgun og starfsmönnum hent út af innri vef félagsins í gærkvöldi. Trúnaðarmaður félagsmanna VR í Eflingu gagnrýnir framkomu stjórnar harðlega og skiptar skoðanir voru meðal stjórnarmeðlima VR á aukafundi um málið í morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×