Innlent

Kjarninn tók út frétt vegna yfir­gengi­legs ras­isma

Smári Jökull Jónsson skrifar
Þórður Snær Júlíusson er ritstjóri Kjarnans
Þórður Snær Júlíusson er ritstjóri Kjarnans Vísir/Egill Aðalsteinsson

Vefmiðlinn Kjarninn tók út frétt sem birtist á vefnum vegna persónuárása, rasisma og hatursorðræðu gegn Lenyu Rún Taha Karim, varaþingsmanns Pírata. Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans segir að sig hafi sett hljóðan við lestur ummælanna.

Kjarninn birti á föstudag viðtal við Lenyu Rún þar sem hún greinir frá því sem hún hafi gengið í gegnum sem varaþingmaður vegna uppruna síns. Í viðtalinu kemur meðal annars fram að hún hafi íhugað að skila kjörbréfi sínu vegna persónuárása í hennar garð.

Í pistli sem Þórður Snær skrifar á Facebook síðu Kjarnans nú undir kvöld segir hann að það verklag sé viðhaft að vinna eina til tvær fréttir upp úr stærri viðtölum og birta dagana á eftir. Það var einnig gert í þetta skiptið.

Þórður segir hins vegar að þegar hluti af viðtalinu við Lenyu Rún hafi verið tekinn úr stærra samhengi hafi orðið til viðbrögð sem hann hafi ekki séð fyrir. Hann segir ekki hægt að lýsa viðbrögðunum öðruvísi en sem persónuárásum, rasisma og hatursorðræðu.

Hann hafi því ákveðið að eyða út ömurlegustu umræðunum sem birtust á samfélagsmiðlum Kjarnans og loka fyrir ný ummæli. Það dugði hins vegar ekki og síðdegis í dag hafi sú ákvörðun verið tekin að eyða út deilingum fréttarinnar og taka hana úr birtingu.

Lenya Rún er fimmta yngsta manneskjan sem hefur tekið sæti á Alþingi sem varamaður en hún var 22 ára og 9 daga gömul þegar hún settist fyrst á þing undir lok síðasta árs.

Hún er fædd og uppalin á Íslandi en bjó í Kúrdistan á árunum 2013 til 2016.  Í viðtalinu við Kjarnann segir hún að hún hafi tekið eftir hatursfullum ummælum þegar hún tók sæti á Alþingi í fyrsta sinn.

„Fólk í kommentakerfinu vísar í okkur sem krakka og mig sem íslamista,“ segir Lenya Rún í viðtalinu við Kjarnann og á þar við hana sjálfa og Gunnhildi Fríðu Hallgrímsdóttur sem tók sæti á þingi sama dag og Lenya Rún.


Tengdar fréttir

Yngst til að taka sæti á þingi

Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir, varaþingmaður Pírata, varð í dag yngsta manneskjan til að taka sæti á Alþingi Íslendinga. Gunnhildur Fríða er jafnframt fyrsta manneskjan sem fædd er á þessari öld til að taka sæti á þingi, en hún er nítján ára og 241 daga gömul. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×