Innlent

Yngst til að taka sæti á þingi

Atli Ísleifsson skrifar
Varaþingmenn Pírata, þær Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir og Lenya Rún Taha Karim, tóku sæti á Alþingi í dag.
Varaþingmenn Pírata, þær Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir og Lenya Rún Taha Karim, tóku sæti á Alþingi í dag. Píratar

Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir, varaþingmaður Pírata, varð í dag yngsta manneskjan til að taka sæti á Alþingi Íslendinga. Gunnhildur Fríða er jafnframt fyrsta manneskjan sem fædd er á þessari öld til að taka sæti á þingi, en hún er nítján ára og 241 daga gömul. 

Fyrra metið átti Karl Liljendal Hólmgeirsson sem var tuttugu ára og 355 daga gamall þegar hann tók sæti árið 2018.

Frá þessu segir í tilkynningu frá þingflokki Pírata en þær varaþingkonurnar Gunnhildur Fríða og Lenya Rún Taha Karim, tóku báðar sæti á þingi í dag fyrir þá Björn Leví Gunnarsson og Andrés Inga Jónsson. 

„Gunnhildur Fríða er þekkt fyrir baráttu sína fyrir aðgerðum í loftslagsmálum og innleiðingu nýrrar stjórnarskrár.

Lenya Rún Taha Karim komst í fréttirnar fyrr í haust þegar niðurstöður Alþingiskosninga bentu til þess að hún væri yngsti kjörni alþingismaður sögunnar. Eftir endurtalningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi datt hún af þingi og varð þess í stað 1. varaþingmaður Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður. Hún tekur nú sæti á Alþingi í fyrsta skipti en baráttumál hennar eru afglæpavæðing vímuefna, réttindi innflytjenda og flóttafólks og aðgengi jaðarsettra hópa að menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu,“ segir í tilkynningunni frá Pírötum.

Hér má sjá upplýsingar um yngstu varamenn til að taka sæti á þingi. 

Jóhanna María Sigmundsdóttir, sem fædd er 1991 og var kjörin á þing fyrir Framsóknarflokkinn árið 2013, er yngsta manneskjan til að verða kjörin á þing en hún var þá 21 árs gömul og 303 daga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×