Innlent

Veifuðu í þyrluna og fengu hjálp við að losa bíl

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bíllinn var pikkfastur í snjónum.
Bíllinn var pikkfastur í snjónum. Mynd/Landhelgisgæslan

Þeir voru heppnir, vegfarendurnir sem höfðu pikkfest bíl þeirra á vegaslóða í nágrenni Hólahóla á Snæfellsnesinu í vikunni.

Svo heppilega vildi til að þyrla Landhelgisgæslunnar var við æfingar. Tókst einum vegfarenda að ná athygli flugmanns þyrlunnar þegar verið var að láta sigmanninn síga niður í nágrenni Hólahóla.

Veifaði hann einfaldlega flugmanninnum og ákveðið var að lenda hjá fólkinu og athuga hvað væri um að vera, eins og það er orðað í Facebook-færslu Landhelgisgæslunnar.

„Þá kom í ljós að bíllinn þeirra var pikkfastur í snjóskafli upp af bílastæði sem þau höfðu lagt á við Hólahóla, vestur af Útnesvegi. Sigmaður og spilmaður þyrlunnar héldu til fólksins og fóru yfir það með þeim hvernig losa skal bíl í þessum aðstæðum,“ segir í færslunni.

„Í framhaldinu losuðu þeir bílinn fyrir fólkið, sem var frelsinu fegið. Þau þökkuðu kærlega fyrir aðstoðina með bros á vör og héldu áfram leiðar sinnar.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×