Fótbolti

„Boltinn fór í lærið og eitthvað“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnhildur Yrsa skoraði eina mark leiksins í dag og tryggði íslenska liðinu sigur.
Gunnhildur Yrsa skoraði eina mark leiksins í dag og tryggði íslenska liðinu sigur. Stöð 2 Sport

„Við vissum að þetta yrði erfiður leikur. Þær eru með drullugott lið. Við skoruðum eitt mark þótt það hafi ekki verið það fallegasta. Við gáfum allt í þetta og ég er svo stolt af liðinu,“ sagði Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, fyrirliði íslenska fótboltalandsliðsins, eftir sigurinn á Tékklandi í dag.

Gunnhildur skoraði eina mark leiksins, með hendinni, þótt hún hafi ekki viljað viðurkenna það.

„Ég hljóp eins hratt og ég gat á boltann og hann fór í lærið og eitthvað. Hann fór inn í markið og mark er mark,“ sagði Gunnhildur.

Tékkar skoruðu í uppbótartíma en markið var dæmt af fyrir óljósar sakir. „Þetta var alveg rétt dæmt og vel gert hjá dómaranum að sjá þetta. Hún dæmdi á bakhrindingu og ef það var ekki rétt var þetta rangstaða.“

Ísland er núna með örlögin í sínum höndum upp á að komast á HM í fyrsta sinn. Ef Íslendingar fá fjögur stig út úr síðustu tveimur leikjum sínum í undankeppninni bíður liðsins þátttaka á HM í Eyjaálfu á næsta ári.

„Við ætluðum alltaf að taka sex stig í þessu verkefni og ég er mjög stolt af liðinu að ná því. Þetta var baráttusigur og við getum gengið stoltar frá þessum leik í dag. Við gáfum allt í þetta,“ sagði Gunnhildur að lokum.

Klippa: Gunnhildur Yrsa eftir leik



Fleiri fréttir

Sjá meira


×