Fótbolti

Ítalía: Napoli mistókst að komast á toppinn

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Immobile skoraði þrennu
Immobile skoraði þrennu EPA-EFE/SIMONE ARVEDA

Fjórum leikjum er lokið í ítölsku úrvalsdeildinni, Serie A, en leikið var í dag. Óvænt úrslit litu dagsins ljós þegar að Fiorentina gerði sér lítið fyrir og vann Napoli á útivelli.

Í fyrsta leik dagsins tapaði Genoa á heimavelli fyrir Lazio, 1-4. Albert Guðmundsson var ekki í byrjunarliði Genoa en kom inn á á 82. mínútu. Ciro Immobile skoraði þrennu fyrir Lazio en hann stefnir á markakóngstitilinn þetta árið.

Napoli fékk Fiorentina í heimsókn og tapaði 2-3. Nicolas Gonzalez kom gestunum yfir í fyrri hálfleik en Dries Merthens svaraði fyrir heimamenn fljótlega eftir að síðari hálfleikur var flautaður á. Jonathan Ikone og Arthur Cabral skoruðu svo með stuttu millibili og gerðu út um leikinn. Victor Obimhen klóraði í bakkann fyrir Napoli en það dugði ekki til. Napoli er eftir leikinn í þriðja sæti deildarinnar en Fiorentina situr í því sjöunda.

Slæmt gengi Atalanta heldur áfram en liðið tapaði 2-0 fyrir Sassuolo. Hamed Junior Traore skoraði bæði mörk Sassuolo sem situr nú í níunda sæti deildarinnar. Atalanta er nú í því áttunda.

Udinese vann frábæran útisigur á Venezia 1-2. Gerard Deloufeu kom Udinese yfir áður en Thomsa Henry jafnaði. Það var svo Rodrigo Becao sem var hetja Udinese þegar hann skoraði sigurmarkið í uppbótartíma. Venezia er enn í fallsæti en Udinese lyfti sér upp í tólfta sæti með sigrinum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×