Innlent

Kanna­bis­ræktandi dæmdur fyrir of­beldi gegn kærasta

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Málið var til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Málið var til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Vilhelm

Kona á höfuðborgarsvæðinu hefur verið dæmd í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kannabisræktun og ofbeldi í nánu sambandi. Konan játaði brot sín fyrir dómi.

Annars vegar var konan ákærð fyrir að hafa sunnudag í ágúst árið 2020 haft á heimili sínu 780 grömm af kannabisplöntum, 35 grömm af laufum og rúm sextán grömm af maríjúana. Einnig að hafa um nokkurt skeið ræktað plönturnar sem fundust á heimili hennar.

Hins vegar var hún ákærð fyrir ofbeldi í nánu sambandi með því að hafa í september sama ár slegið þávarandi kærasta í höfuðið með glerflösku með þeim afleiðingum að kærastinn hlaut yfirborðsáverka og skurði í andliti. Konan var með 0,2 grömm af maríjúana á sér þegar lögregla leitaði á henni. Var hún aftur kærð fyrir fíkniefnabrot.

Þá var konan einnig ákærð fyrir að hafa ítrekað slegið sama þáverandi kærasta með tjaldhæl í höfuðið í október 2021. Saksóknari féll frá þeim hluta ákærunnar fyrir dómi.

Við ákvörðun refsingar leit Héraðsdómur Reykjavíkur meðal annars til þess að í því tilfelli sem konan sló kærastann þáverandi með glerflösku hefðu þau átt í átökum. Kærastinn hefði togað í hár hennar í þeim átökum. Þá leit dómurinn til þess að konan hefði hætt neyslu eftir að brot gerðust.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×