Innlent

Með skila­­boð til Ís­­lendinga: „Hjálpin sem þið hafið veitt okkur gleymist aldrei“

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Olexander er frá Kænugarði en hann kom til Íslands fyrir viku síðan.
Olexander er frá Kænugarði en hann kom til Íslands fyrir viku síðan. vísir

Vestur­bæingar og fyrir­tæki í ná­grenninu hafa tekið höndum saman við að út­vega úkraínskum flótta­mönnum sem dvelja á Hótel Sögu ýmsar nauð­synjar, þar á meðal sund­kort. Við hittum flótta­mann sem var með skila­boð til ís­lensku þjóðarinnar.

Rúm­lega níu­tíu flótta­menn dvelja nú í þessari sögu­frægu byggingu og þá getur vantað ýmis­legt.

„Fólk getur vantað rosa­lega margt. Þetta er fólk sem er að koma beint úr stríðs­á­standi og er að koma beint af flug­vellinum og er ekki einu sinni með föt á sig eða neitt. Vantar hrein­lætis­vörur, klósett­pappír og alls konar hluti,“ segir Markús Már Efraím Sigurðs­son, sjálf­boða­liði sem hefur séð um að afla nauð­synjum fyrir flótta­manna­hópinn.

Markús hefur haldið utan um söfnun fyrir hópinn.vísir

Vestur­bæingar hafa lagst á eitt og í dag hefur verið stríður straumur af fólki sem kemur með alls kyns nauð­synja­vörur fyrir hópinn.

„Föt, hjól fyrir krakkana, leik­föng, alls konar nauð­synjar, svona hluti sem manni dettur ekki einu sinni í hug alltaf; dömu­bindi, bleyjur og annað slíkt,“ segir Markús.

Þá hafa veitinga­staðir í ná­grenninu einnig fært fólkinu mat.

Markús stofnaði síðu á Face­book þar sem búið er að koma á skil­virku kerfi til að halda utan um hvað flótta­mennirnir þurfa, svo fólk komi ekki með allt of mikið af ó­þörfum hlutum.

Á leiðinni í sund

Við hittum Olexander sem flúði heimili sitt í Kænu­garði og kom til Ís­lands fyrir viku síðan fyrir utan Hótel Sögu í dag, sem var afar þakk­látur Vestur­bæingum:

„Ég hef aldrei orðið að­njótandi svo mikillar hjálpar eins og hér,“ segir hann.

„Við erum ykkur afar þakk­lát. Við gleymum aldrei þessari hjarta­gæsku. Hjálpin sem þið hafið veitt okkur gleymist aldrei.“

Meðal þess sem hópurinn hefur fengið er þriggja mánaða sund­kort og var Olexander ein­mitt á leið í sund með krökkum en þeir eru margir á hótelinu.

„Þetta eru mest börn, en líka full­orðnir, við erum um tíu menn alls hér. Við reynum að hjálpa og gera okkar besta,“ segir Olexander.

„Mig langar að segja við ykkur Ís­lendinga: Kærar þakkir fyrir hlýjuna og stuðninginn. Við erum mjög þakk­lát. Kærar þakkir.“


Tengdar fréttir

Vestur­bæingar sjá um hundrað flótta­mönnum á Hótel Sögu fyrir nauð­synjum

Tæplega eitt hundrað úkraínskir flóttamenn, konur og börn, hafa fengið þak yfir höfuðið í Bændahöllinni, þar sem Hótel Saga var þar til nýlega. Svo virðist sem fólkið fái ekki mikið meira en þak yfir höfuðið enda hafa íbúar Vesturbæjar tekið það á sig að verða fólkinu úti um helstu nauðsynjar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×