Innlent

Aftur skekur fjár­­dráttur Ís­­lensku kirkjuna í Noregi

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Á myndinni er Nordberg-kirkja í Noregi.
Á myndinni er Nordberg-kirkja í Noregi. Samsett mynd/Guðni Ölversson

Gjaldkeri Íslensku kirkjunnar í Noregi hefur látið af störfum og honum vikið úr stjórn safnaðarins vegna mögulegs fjárdráttar. Kirkjan segir rökstuddan grun fyrir fjárdrættinum og gjaldkerinn hefur verið kærður til lögreglu.

Í tilkynningu á vefsíðu safnaðarins segir að stjórn og starfsfólk eigi í góðu samstarfi við lögreglu.  Kapp sé lagt á að upplýsa málið hratt og vel og kirkjan ætli sér að halda ótrauð áfram.

Á vefsíðu safnaðarins segir enn fremur að gjaldkerinn hafi starfað fyrir söfnuðinn síðan hann var kosinn í stjórn árið 2018. Þá hafi hann einnig gegnt stöðu starfsmannastjóra safnaðarins.

Þetta er í annað sinn á tæpum þremur árum sem stjórnarmeðlimur kirkjunnar er sakaður um fjárdrátt. Árið 2019 lét formaður safnaðarins af störfum en þá komst upp um að hann hefði í nokkrum tilfellum misnotað greiðslukort í starfi sínu. Trúfélagið ákvað þá að kæra málið ekki til lögreglu.

Á þeim tíma fór stjórn kirkjunnar fram á að formaðurinn mundi endurgreiða söfnuðinum vegna fjárdráttarins sem hann og gerði. 

Þá var einnig mikil ólga innan safnaðarins árið 2018 þegar prestur safnaðarins fór í námsleyfi. Á aðalfundi það ár urðu töluverð átök og stóð sá fundur í fimm klukkustundir, meðal annars vegna fjárhagsmála safnaðarins.

Um 6000 manns voru skráðir í trúfélagið í Noregi árið 2019 en norska ríkið greiðir ákveðna upphæð á mánuði fyrir hvern skráðan einstakling til Íslensku kirkjunnar í Noregi.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×