Innlent

Gríðarlegt álag á bráðamóttöku barna vegna inflúensu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Valtýr Thors, barnalæknir. 
Valtýr Thors, barnalæknir.  Vísir/Arnar

Gríðarlegt álag hefur verið á bráðamóttöku barna í vikunni vegna inflúensu og kórónuveirunnar. Aðsóknarmet hafa verið slegin dag eftir dag, að sögn Valtýs Thors, barnalæknis á Barnaspítala Hringsins.

„Þetta er að slaga upp í hundrað komur á dag. Aðsóknarmetin hafa lengi verið í kringum áttatíu en núna er þetta yfir níutíu á hverjum einasta degi og alveg óhemju mikið álag,” segir Valtýr.

Árleg inflúensa hefur verið að gera vart við sig að undanförnu en stærstur hluti þeirra sem greinist í dag eru börn en viðbúið er að fleiri fullorðnir smitist í framhaldinu. Eitt barn er inniliggjandi á spítala með inflúensu og fimm börn með covid-19, þar af er nýburi á gjörgæslu á vökudeild.

Valtýr segir að einkenni inflúensu og covid séu keimlík og oft erfitt að greina þar á milli með skoðun einni og sér. Þá sé útlit fyrir að börn sem nýverið hafi veikst séu móttækilegri fyrir næstu pest.

„Við erum að sjá mjög mikið af krökkum, ekki bara á spítalanum heldur líka á heilsugæslunni og hjá öðrum barnalæknum úti í bæ, sem eru að glíma við síendurtekin veikindi, allt frá október, desember og jafnvel fyrr. Þetta veldur miklu álagi, á börnin fyrst og fremst en líka á heilbrigðisþjónustuna og auðvitað foreldrana.”

Hann segir að spítalinn ráði enn við ástandið en vonar að það fari að hægjast um.

 „Þetta er allt á bláþræði hjá okkur, að því leytinu til að við erum ekki bara með bráðamóttökuna heldur líka inniliggjandi á deildinni. Það eru allir á hlaupum alla daga og við erum að vonast til að þegar fer að sljákka í inflúensunni að það komi tímabil þar sem fólk geti aðeins hlaðið batteríin. En það verður bara að koma í ljós,” segir Valtýr og tekur fram að þrátt fyrir eril á spítalanum eigi fólk ekki að veigra sér við því að leita þangað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×