Fótbolti

Horfði upp á félaga sinn í íslenska landsliðinu brotna: „Ömurlegt“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefán Teitur Þórðarson og Elías Rafn Ólafsson komu báðir sterkir inn í íslenska landsliðið síðasta haust en þeir hafa líka verið að gera flotta hluti með liðum sínum í dönsku deildinni.
Stefán Teitur Þórðarson og Elías Rafn Ólafsson komu báðir sterkir inn í íslenska landsliðið síðasta haust en þeir hafa líka verið að gera flotta hluti með liðum sínum í dönsku deildinni. Vísir/Vilhelm

Landsliðsmarkvörðurinn Elías Rafn Ólafsson er ekki með íslenska landsliðinu í æfingabúðunum á Spáni þrátt fyrir að hafa verið valinn í hópinn. Ástæðan eru meiðslin sem hann hlaut í síðasta leik Midtjylland fyrir landsliðsgluggann.

Midtjylland var þá að spila á móti Silkeborg en undir loks leiksins þá handleggsbrotnaði Elías Rafn Ólafsson eftir að hafa lent í samstuði.

Í leiknum var Stefán Teitur Þórðarson í liði Silkeborg og varð því vitni að meiðslum félaga síns í íslenska landsliðinu. Báðir höfðu þeir stimplað sig inn í byrjunarlið íslenska landsliðsins síðasta haust.

„Það var ömurlegt að sjá þetta. Elías er frábær markvörður finnst mér og hefur gripið sitt tækifæri hjá Midtjylland frábærlega. Við erum góðir vinir. Þetta var bara mikil óheppni að fara í þetta samstuð þarna,“ sagði Stefán Teitur Þórðarson þegar hann var spurður út í atvikið á blaðamannafundi í gær.

„Ég talaði aðeins við hann eftir leikinn og spurði hann þá bara um það hvernig framhaldið yrði eða hvort hann vissi eitthvað. Svo kom bara í ljós að hann væri brotinn sem er skelfilegt fyrir hann sjálfan,“ sagði Stefán Teitur.

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mætir Finnlandi á laugardaginn í Murcia og hefst leikurinn klukkan fjögur að íslenskum tíma. Liðið mætir svo Spáni í Coruna þriðjudaginn 29. mars og hefst sá leikur klukkan 18:45 að íslenskum tíma. Báðir leikirnir verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×