Innlent

Bóta­skylda viður­kennd eftir að kona datt í dimmum stiga í ræktinni

Atli Ísleifsson skrifar
Tryggingafélagið TM er jafnframt dæmt til að greiða konunni tæpar tvær milljónir í málskostnað.
Tryggingafélagið TM er jafnframt dæmt til að greiða konunni tæpar tvær milljónir í málskostnað. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur viðurkennt skaðabótaskyldu tryggingafélagsins TM vegna líkamstjóns sem kona hlaut eftir að hafa dottið niður stiga í líkamsræktarstöð árið 2019. Dómurinn taldi að slysið mætti rekja til ófullnægjandi lýsingar í stiganum.

Í dómnum kemur fram að konan hafi verið á leið upp á efri hæð líkamsræktarstöðvarinnar en á leiðinni hafi hún fallið í stiganum þannig að hún hitti ekki á tröppuna sem hún ætlaði að stíga í og féll á tröppuna fyrir ofan.

Við fallið fékk konan högg á vinstra læri, bólgu og mar, og leitaði í kjölfarið aðhlynningar á bráðamóttöku. Kom í ljós að um væri að ræða blæðingu inn í vöðva. Síðar kom í ljós að hún hafði fengið taugaskaða sem ylli viðvarandi verkjum. Sömuleiðis voru niðurstöður bæklunarlæknis árið 2021 þær, að varanleg læknisfræðileg örorka konunnar teldist fimm prósent.

Stiginn sem um ræðir er byggður úr stáli, þrískiptur og umvafinn lyftuhúsi. Starfsmenn líkamsræktarstöðvarinnar bættu við merkingum í stiganum eftir ábendingar konunnar eftir slysið.

Ekki forsvaranleg lýsing

Við upphaf aðalmeðferðar fóru dómarar og málsaðilar á vettvang, fyrir sólarupprás til að aðstæður væru með sem líkustum hætti og þegar slysið varð. Öll vitni í málinu minnti til að tröppurnar hafi verið dökkar á lit og lýsing hafi verið lítil þegar slysið varð.

Það var mat dómsins að lýsingin í stiganum hafi verið alls ófullnægjandi og að slysið verði aðallega rakið til þess, enda aðbúnaðurinn ekki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar.

„Þannig er það mat dómsins, með vísan til vettvangsgöngu, að lýsing á umræddum slysstað hafi ekki verið forsvaranleg og umbúnaður í stiganum þar með ekki verið nægilega öruggur,“ segir í dómnum. Því sé rekstraraðili líkamsræktarstöðvarinnar talinn eiga sök á tjóni konunnar.

TM er jafnframt dæmt til að greiða konunni tæpar tvær milljónir króna í málskostnað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×