Innlent

Úkraínskt flóttafólk gisti á heimili dómsmálaráðherra

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Atli smellti af þessari mynd af dómsmálaráðherra með úkraínsku mæðginunum.
Atli smellti af þessari mynd af dómsmálaráðherra með úkraínsku mæðginunum. Atli Sigurðarson

Úkraínsk kona og sonur hennar gistu í nótt á heimili Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra í Kópavogi. Fólkið er á meðal þeirra sem flúið hafa heimalandið eftir innrás Rússlands.

Atli Sigurðarson, íbúi í Kópavogi og vinur Jóns, segir í færslu á Facebook hafa sótt vinkonu sína og son hennar, flóttafólk frá Úkraínu, út á Keflavíkurflugvöll seint í gærkvöldi.

„Ég var í vandræðum með að hýsa þau sjálfur og hringdi því í vin minn og fyrrverandi mág, gamla björgunarsveitamanninn Jón Gunnarsson til að leita ráða varðandi húsnæði,“ segir Atli. Ekki hafi staðið á svörum hjá ráðherranum.

„Kemur hún ekki bara til okkar til að byrja með?“

Atli segist í samtali við Vísi að Jón hafi bjargað sér fyrir horn.

„Sem betur fer. Það gleymist kannski stundum að Jón er björgunarsveitarmaður. Það er bara þannig. Það element í honum er þarna,“ segir Atli. Hann hafi alltaf getað leitað til hans um hvaðeina.

Frá Kharkiv þar sem Rússar hafa gert loftárásir undanfarna daga.Getty Images/Vyacheslav Madiyevskyy

„Ég gerði það í gærkvöldi og það stóð ekki á því að opna heimilið.“

Atli var á ferðinni með úkraínsku vinum sínum á höfuðborgarsvæðinu, að skrá þau, gera og græja. Allt það sem fylgir komu fólks hingað til lands á flótta. Hann hafði ekki mikinn tíma til að spjalla en segir þó fólkinu heilsast vel.

„Þau eru mjög ánægð að vera komin úr þessu ástandi sem þau voru í,“ segir Atli. Þau hafi verið búsett í úkraínsku borginni Kharkiv hvar íbúar hafa fengið að finna fyrir mætti rússneska hersins.

Elísabet Inga Sigurðardóttir, fréttakona okkar, ræddi við Jón Gunnarsson um málið að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Fylgst er með gangi mála í Úkraínu í vaktinni á Vísi.


Tengdar fréttir

Vill að úkraínskt flóttafólk fái atvinnuleyfi við komuna til landsins

Þingmaður Pírata segir nauðsynlegt að flóttafólk frá Úkraínu fái atvinnuleyfi við komuna til landsins. Hann segir stjórnvöld vísa fólki leið sem feli í sér minni réttindi en það eigi rétt á. Búist er við að tvö til fimm þúsund úkraínskir flóttamenn muni leita hingað til lands á næstunni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.