Innlent

Friðaðir fuglar drepast og ólíft í kringum skólann

Snorri Másson skrifar
Æðarfuglar eru friðaðir og fá þurfti sérstakt leyfi til að aflífa þá sem höfðu orðið illa úti í olíuleka á Suðureyri.
Æðarfuglar eru friðaðir og fá þurfti sérstakt leyfi til að aflífa þá sem höfðu orðið illa úti í olíuleka á Suðureyri. Aðsend mynd

Íbúi á Suðureyri er óánægður með viðbrögðin við olíuleka sem varð á fimmtudag. Afla þurfti leyfis hjá lögreglu til að aflífa friðaða fugla - og það er að sögn íbúa ólíft í kringum grunnskólann og sundlaugina vegna lyktar.

Tugum anda hefur verið komið fyrir inni í hlýjunni og reynt að fjarlægja olíu úr fjöðrum þeirra, eftir að þær lentu í ógöngum við höfnina á Suðureyri. Þar er allt á floti í olíu eftir að fleiri þúsund lítrar láku úr niðurgröfnum tanki sem gaf sig á fimmtudag.

„Olía lekur í tjörnina og til dæmis skólinn hérna og krakkarnir og þeir sem voru í sundlauginni, það er eiginlega bara ólíft á þessu svæði. Svo lekur þetta niður í tjörn og sjó. En á laugardaginn þegar enginn viðbragðsaðili sem virtist ætla að gera neitt til að bjarga æðarkollunum og æðarblikunum, sem eru friðaðir fuglar, þá tökum við bara höndum saman og förum að bjarga því sem bjargað verður,“ segir Auður Steinberg, íbúi á Suðureyri, í samtali við fréttastofu.

Fuglarnir eru friðaðir - þannig að það þurfti sérstakt leyfi til að aflífa nokkra þeirra. Og það var gert.

„Það er hundleiðinlegt þegar svona fer. Það er í sjálfu sér ekki mikið sem hægt er að gera. Það er búið að tæma tankinn. Væntanlega er einhver olía í jarðvegi þarna við tankinn og það verða gerðar áætlanir um að fjarlægja það,“ segir Anton Helgason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða.

Olíutankurinn var í notkun þar sem Landsvirkjun hafði takmarkað rafmagn til íbúa. Auður Steinberg segir ábyrgðina hjá Orkubúi Vestfjarða.

„Íbúar eru mjög óánægðir með viðbrögðin í rauninni. Það gera sér allir grein fyrir að þetta er að sjálfsögðu slys. Lekinn er ekki viljandi, en viðbrögðin eru þannig að það segja allir. Heyrðu það er að koma helgi og þetta gerist eftir helgi, eins og slysin gerist bara á milli átta og fjögur á virkum dögum,“ segir Auður.

Endurnar eru nú í hinni nýju Fuglamiðstöð Suðureyrar - og vandséð hvert eigi að sleppa þeim út í náttúruna. Ekki er hægt að setja þær aftur út í olíuna.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.