Menning

Sýningin Freistingin opnar á morgun: „Er nema von að sálir kvenna standi í ljósum logum um allan heim“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Listakonan Ragnhildur Jóhanns opnar sýninguna Freistingin á morgun í sýningarrými Hjarta Reykjavíkur.
Listakonan Ragnhildur Jóhanns opnar sýninguna Freistingin á morgun í sýningarrými Hjarta Reykjavíkur. Aðsend

Listakonan Ragnhildur Jóhanns opnar sýninguna „Freistingin“ á morgun, laugardaginn 5. mars, á milli klukkan 17:00 og 19:00 í sýningarrými Hjarta Reykjavíkur að Laugavegi 12b.

Ragnhildur notast mikið við kvenleikann í listsköpun sinni og konur eru gjarnan í forgrunni verka hennar. Það er svo sannarlega tilfellið á þessari sýningu en samkvæmt sýningartexta Dr. Yndu Eldborg fjallar Ragnhildur um sjálfsmyndir sem konur velja sér og þær sjálfsmyndir sem feðraveldið og stuðningsfólk þess heldur leynt og ljóst að þeim í gagnvirkum fjölmiðlum samtímans.

Úr klippimyndalistaverki Ragnhildar. Var fullnæging ástríðunnar þess virði?Aðsend

Bókverk og afmæli

Á opnuninni kemur út nýtt bókverk eftir Ragnhildi sem ber nafnið Ósköp. Það verður gefið út í 45 tölusettum og árituðum eintökum en bæði sýningin og útgáfa bókverksins eru í tilefni þess að Ragnhildur á 45 ára afmæli þann 6. mars, daginn eftir opnun.

Aðspurð segist Ragnhildur hafa unnið að þessari sýningu síðan haustið 2021. Bækur tengjast listsköpun hennar nánum böndum og því á vel við að gefa út bókverk í tengslum við listasýninguna.

„Ég hef lengi unnið með kvenleikan í listsköpun minni og ég sæki oft innblástur í gamlar bækur og þá oft bækur sem fjalla um kvenleika, hvernig konur ættu að haga sér, klæða sig og farða sig sem dæmi. Bækur eru almennt mikið innblásturs efni fyrir mig enda vinn ég gjarnan með texta í mínum verkum og með þessari sýningu hef ég haldið áfram á þeirri línu.“
Úr verki Ragnhildar fyrir sýninguna Freistingin.Aðsend

Framlag til mikilvægrar feminískrar vitundarvakningar

Í texta Dr. Yndu Eldborg segir að frá árinu 2020 hafi Ragnhildur Jóhanns tekið þátt í ýmsum femínískum umræðum með klippimyndum sínum. Enn fremur segir að verk Ragnhildar séu framlag til þeirrar vitundarvakningar sem hefur orðið meðal ungra femínista sem taka OnlyFans, kynlífsverkafólk og netmiðlun á kynferðislegu efni sem hluta af feminískri baráttu fyrir réttlæti þar sem konur taka sér vald yfir eigin líkömum á eigin forsendum gegn feðraveldinu og púritanisma ýmissa af eldri kynslóð femínista.

Dr. Ynda Eldborg skrifar:

„Ragnhildur sækir einnig efni í klippimyndir sínar í gleymdan og grafinn menningararf þjóðarinnar; ógagnvirk pornóblöð og Tígulgosa fortíðarinnar sem gegndu sama hlutverki og netið gerir í dag sem uppspretta þekkingar, drauma, ímyndunarafls, sjálfsmynda og ranghugmynda um óseðjandi kynlífsgyðjur til endalausra nota fyrir feðraveldið.

Er nema von að sálir kvenna standi í ljósum logum um allan heim.“

Sýningin stendur til 3. apríl næstkomandi. Nánari upplýsingar má finna hér






Fleiri fréttir

Sjá meira


×