Innlent

Krefur Agnieszku út­skýringa á um­mælum á trúnaðar­ráðs­fundi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Viðar krefst þess að fá að vita hvað Agnieszka meinti með ummælum sínum á trúnaðarráðsfundi.
Viðar krefst þess að fá að vita hvað Agnieszka meinti með ummælum sínum á trúnaðarráðsfundi.

Agnieszku Ewu Ziółkowsku, sitjandi formanni Eflingar, hefur borist bréf þar sem hún er innt eftir útskýringum á ummælum sem hún lét falla á fundi trúnaðarráðs um ráðstöfun fjármuna félagsins.

Þetta staðfestir Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður, sem sendi bréfið fyrir hönd Viðars Þorsteinssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Eflingar. 

Heimildir fréttastofu herma að umrædd ummæli hafi varðað samning sem gerður var við Andra Sigurðsson, sem meðal annars er þekktur fyrir aðkomu sína að Facebook-síðu Jæja-hópsins. Samningurinn er sagður hafa snúist um vefsíðugerð og kostnaður við hann hlaupið á mörgum, ef ekki tugum, milljóna.

Andri er félagi í Sósíalistaflokknum, líkt og Sólveig Anna Jónsdóttir, sem nýverið var endurkjörinn formaður Eflingar eftir að hafa sagt af sér fyrir áramót. Andri, Sólveig og Viðar hafa öll skrifað greinar sem hafa birst á heimasíðu Jæja, jaeja.org, en Andri er einnig pistlahöfundur hjá Stundinni og birti þar grein Sólveigu til stuðnings í aðdaganda kosninganna hjá Eflingu.

Samkvæmt heimildum fréttastofu virðist sem Agnieszka hafi á fundinum ýjað að því að því að ekki hafi verið staðið að samningum við Andra með lögmætum hætti og að hún, sem formaður Eflingar, væri að „rannsaka“ málið.

Agnieszka vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa ræddi við hana en sagðist hafa leitað til lögmanns vegna þess. Hún væri aðeins að sinna hlutverki sínu sem formaður Eflingar.

Hvorki hún né Gunnar Ingi vildu deila bréfinu með Vísi.

Viðar vildi heldur ekki tjá sig um málið en staðfesti að Andri hefði unnið fyrir Eflingu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×