Fótbolti

Nýtt Start hjá Magna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Magni Fannberg var kynntur til leiks hjá Start í dag.
Magni Fannberg var kynntur til leiks hjá Start í dag. start

Magni Fannberg hefur verið ráðinn íþróttastjóri Start í Noregi. Hann skrifaði undir fjögurra ára samning við félagið.

Magni kemur til Start frá AIK í Svíþjóð þar sem hann gegndi starfi þróunarstjóra í þrjú ár. Hann sinnti sama starfi hjá Brann í Noregi um þriggja ára skeið.

Þar áður þjálfaði Magni hjá Brommapojkarna í Svíþjóð, meðal annars aðallið félagsins í eitt ár í sænsku B-deildinni.

Þá þjálfaði Magni meistaraflokk karla hjá Fjarðabyggð og starfaði hjá Grindavík, Val og HK hér á landi.

Fyrr á þessu ári var Magni valinn stjórnandi ársins í sænska fótboltanum. Þau verðlaun eru veitt þeim sem koma að þjálfun og þróun ungra fótboltamanna.

Nokkrir íslenskir leikmenn hafa leikið með Start og tveir Íslendingar þjálfað liðið; Skagamennirnir Guðjón Þórðarson og Jóhannes Harðarson. Einn Íslendingur er núna í herbúðum Start, Bjarni Mark Antonsson.

Á síðasta tímabili endaði Start í 9. sæti norsku B-deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×