Jákvætt hraðgreiningapróf mun því nægja til greiningar á Covid-19 og ekki verður þörf á staðfestingu á greiningunni með PCR-prófi, að því er fram kemur í tilkynningu frá sóttvarnalækni.
Notkun á PCR-prófum verður framvegis bundin við ábendingar lækna og þá sem eru með alvarleg einkenni eða alvarlega undirliggjandi sjúkdóma. Einnig verða PCR-próf áfram í boði fyrir fólk sem þarf á neikvæðum niðurstöðum slíkra prófa að halda vegna ferðalaga erlendis en þá gegn gjaldi.
Allt að þriggja daga bið eftir niðurstöðu úr PCR
Hámarki PCR-greiningargetu vegna Covid-19 var náð fyrir nokkru síðan og hefur leitt til þess að bið eftir niðurstöðu er orðin allt að tveir til þrír sólarhringar. Er þetta óásættanlegur tími að mati sóttvarnalæknis.
„Þeim sem nú greinast með COVID-19 á hraðgreiningaprófi er ekki skylt að dvelja í einangrun en engu að síður eru tilmæli sóttvarnayfirvalda þau, að fólk dvelji í einangrun í 5 daga. Ef fólk er einkennalítið eða einkennalaust þá getur það mætt til vinnu en fari þá eftir leiðbeiningum um smitgát í 5 daga. Samkvæmt núgildandi reglugerð um einangrun þá er þeim sem greinast með PCR-prófi hins vegar skylt að dvelja í einangrun í a.m.k. 5 daga,“ segir í tilkynningunni.
Áfram verður hægt að panta tíma í hraðpróf hjá heilsugæslunni á Heilsuveru og hjá einkafyrirtækjum sem bjóða upp á slík hraðgreiningarpróf. Sýnatakan er almenningi áfram að kostnaðarlausu.
Um vika er síðan sóttvarnalæknir ákvað að hætt yrði að raðgreina öll jákvæð PCR-sýni eftir að fjöldi sýna fór fram úr raðgreiningargetu Íslenskrar erfðagreiningar og ómíkron afbrigði kórónuveirunnar varð allsráðandi hér á landi. Fyrirtækið mun áfram raðgreina ákveðið úrtak í samvinnu við sýkla- og veirufræðideild Landspítalans til að fylgjast með hvaða afbrigði berast til landsins og breiðast hér út.
Fréttin hefur verið uppfærð.