Fótbolti

Lítur út fyrir að tölvuþrjótar hafi stolið 252 milljónum króna af Rosenborg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmar Örn Eyjólfsson lék með Rosenborg en er nú kominn heim þar sem hann mun spila með Val í sumar.
Hólmar Örn Eyjólfsson lék með Rosenborg en er nú kominn heim þar sem hann mun spila með Val í sumar. Getty/Photo Prestige

Íslensk félög hafa mörg fengið fínan pening þegar uppaldir leikmenn liðanna eru seldir áfram. Þau verða hins vegar að passa sig að peningurinn rati inn á þeirra reikninga. Það er komið upp víti til varnaðar í Noregi.

Rosenborg hefur nefnilega ekkert séð af þeim peningum sem norska félagið átti að fá þegar Ole Selnæs var seldur frá St. Etienne til kínverska félagsins Shenzen.

Forráðamenn Shenzen hafa komið fram og sagt að þeir hafi greitt upphæðina en hún komst aldrei alla leið inn á reikninga Rosenborg.

„Við höfum ekki fengið peninginn,“ svaraði Roar Munkvold, framkvæmdastjóri í tölvupósti til idrettspolitikk.no sem hefur fjallað um málið.

Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, hefur farið yfir málið og komist að því að kínverska félagið hafi gert allt rétt og að Rosenborg þurfi að líta á þetta sem tapaða peninga.

Forráðamenn Rosenborg óttast það að tölvuþrjótar hafi verið þarna á ferðinni og að þetta sé orðið lögreglumál.

Tölvuþrjótarnir hafi þannig komist inn í tölvupóst sendingarnar til Kína og gefið Kínverjum upp nýtt reikningsnúmer sem er númer á reikningi í Portúgal. Peningurinn endaði því ekki á reikning Rosenborg heldur á reikningi tölvuþrjótanna í Portúgal.

„Eins og við sjáum þetta þá lítur út fyrir að RBK sé fórnarlamb tölvuþrjóta,“ sagði Munkvold í fyrrnefndum tölvupósti.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.