Innlent

„Það er alveg nóg að fá þúsund nýja íbúa á Selfoss í ár“

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Nýjasta blokkin á Selfossi, sem flutt var inn í nýlega og við hlið hennar er verið að byggja samskonar blokk.
Nýjasta blokkin á Selfossi, sem flutt var inn í nýlega og við hlið hennar er verið að byggja samskonar blokk. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Reiknað er með að íbúum á Selfossi fjölgi um fimmtán prósent á árinu, sem samsvarar að um átján hundruð manns muni flytja í bæjarfélagið. Bæjarstjórinn segir mikla vaxtarverki fylgja svo mikilli fjölgun og vonar að hún verði ekki svo mikil, það sé alveg nóg að fá þúsund nýja íbúa.

Það hefur verið ævintýri líkast að fylgjast með allri uppbyggingunni á Selfossi síðustu ári og sjá hvað bæjarfélagið er að stækka með nýjum íbúðarhverfum og þar með nýjum íbúum, sem flytja í hverfin. 

Árið 2022 verður líklega algjört metár í fjölda nýrra íbúa því reiknað er með 15 prósent fjölgun í ár. Í dag eru íbúar á Selfossi um 9.300 en í allri Árborg eru þeir tæplega 11 þúsund.

„Áformin eru slík að ef allar þær íbúðir yrðu byggðar á þessu ári, sem menn hyggja á og það yrði flutt í þær allar þá myndi það samsvara 15 prósent fjölgun íbúa. Það eru um 1800 manns. Ég vona nú að menn stilli sig eitthvað í þessu, það er alveg nóg fyrir okkur að fá þúsund manns,“ segir Gísli Halldór.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Árborg, sem segir alveg nóg að þúsund nýir íbúar flytji á Selfoss í ár.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Hann segir mikla vaxtarverki fylgja 15 prósent fjölgun fyrir sveitarfélagið.

„Já, gríðarlega miklir, það er mikið sem þarf að viðhafa í tengslum við skólahúsnæði og leikskólamál. Við erum að fá ýmis verkefni í fangið, eins og mygluvandræðin á Eyrarbakka, sem krefjast þess að við gerum átak þar í skólahúsnæðismálum,“ segir bæjarstjórinn.

Mikil uppbygging á sér stað í nýja miðbænum á Selfossi og þar hefjast framkvæmdir í vor við áfanga númer tvö.Sigtún Þróunarfélag


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×