Innlent

Mikil­vægt að átta sig á snjó­flóða­hættu

Óttar Kolbeinsson Proppé og Viktor Örn Ásgeirsson skrifa
Guðbrandur Örn Arnarson verkefnastjóri aðgerðamála hjá Landsbjörgu segir að aðstæður geti verið varasamar.
Guðbrandur Örn Arnarson verkefnastjóri aðgerðamála hjá Landsbjörgu segir að aðstæður geti verið varasamar. Vísir/Egill

Hætta er talin á snjóflóðum úr fjöllum eða við þéttbýli víða á landinu vegna fannfergis síðustu daga. Landsbjörg segir hættuna töluverða í Esjunni og biður göngufólk að fara varlega.

„Nú er Veðurstofan búin að gefa út viðvörun á sínum vef þar sem á suðvesturhorninu er talsverð snjóflóðahætta í raun og veru. Það skapast náttúrulega bara af þeim umhleypingum sem hafa verið hér undanfarið þar sem að það eru veik lög undir talsvert miklu magni af snjó,“ segir Guðbrandur Örn Arnarson verkefnastjóri aðgerðamála hjá Landsbjörgu.

Hann bætir við að snjór geti auðveldlega safnast saman og skriðið af stað án mikils fyrirvara. Það sem snjó sé að finna og land halli upp á við sé eðli málsins samkvæmt alltaf möguleiki á snjóflóðum.

Veðurstofan auk vefsíðunnar Safetravel.is vöruðu við snjóflóðahættu fyrr í dag og þá sérstaklega á suðvesturhorni landsins. Á vef Veðurstofunnar segir að veikleikar hafi verið í snjónum í landshlutanum í síðustu viku og gera þurfi ráð fyrir að þeir séu enn til staðar.

Guðbrandur Örn segir mikilvægt að göngufólk fylgist sérstaklega vel með. Fólk sé líklega öruggara á hefðbundnum gönguleiðum en það þurfi þó ekki endilega að vera.

„Það er í rauninni líka mikilvægt að vita hvað snjóflóðahætta þýðir í raun og veru. Og verða sér út um þann búnað sem þarf til þess að verja sig ef maður ætlar að fara svona utan þessara hefðbundnu gönguleiða.

Við erum með tvö nýleg dæmi þar sem að fólk hefur farist í snjóflóðum í Esjunni og svo eru eldri dæmi um það að fólk hafi farist hérna uppi í Þverfellshorni og hefur lent í snjóflóði og látist,“ segir Guðbrandur Örn.


Tengdar fréttir

Vara við mögulegum snjóflóðum í heimafjöllum við þéttbýli

Slysavarnafélagið Landsbjörg minnir göngufólk á að í mörgum heimafjöllum við þéttbýli kunni að skapast töluverð snjóflóðahætta. Tilefnið er að töluvert hefur snjóað í fjöll undanfarið, bæði við höfuðborgarsvæðið og víðar á landinu



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×