Innlent

Segir sögu­þráð Ver­búðarinnar mjög ná­lægt sann­leikanum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Anna Ólafsdóttir Björnsson.
Anna Ólafsdóttir Björnsson. stöð2

Fyrrum þingkona Kvennalistans segir Verbúðina endurspegla andrúmsloftið á níunda áratugnum og telur söguþráðinn mjög nálægt sannleikanum. Hún segist viss um að Kristín Halldórsdóttir heitin sé fyrirmynd skeleggrar persónu í þáttunum.

Síðasti þáttur Verbúðarinnar var sýndur á RÚV í gær en þættirnir hafa hlotið góðar viðtökur. Þeir fjalla um árin þegar kvótakerfið er að verða til, en þættirnir eru byggðir á raunverulegum atburðum og má sjá þekkta einstaklinga bregða fyrir.

Anna var á þingi fyrir Kvennalistann frá árinu 1989. Hún segir að eftir að þættirnir fóru í loftið hafi fyrrum þingmenn Kvennalistans velt því fyrir sér hver þessi skelegga kona hér eigi að vera.

Hún segir marga sannfærða um að fyrirmyndin sé Kristín Halldórsdóttir heitin. Fyrrum þingkona Kvennalistans. Ekki síst vegna þess að þrumuræða sem leikkonan Halla Margrét fer með sé að hluta til ræða Kristínar.

„Hún hélt mikla og hófstillta þrumuræðu þegar verið er að samþykkja framsalið sem er í raun aðal gallinn á kvótalögunum,“ sagði Anna Ólafsdóttir Björnsson, fyrrum þingkona Kvennalistans.

Í myndbandinu má sjá ræðu Kristínar samhliða ræðunni sem kom fram í Verbúðinni.

Hún segist ánægð með þættina og telur þá mjög nálægt sannleikanum.

„Þættirnir endurspegla andrúmsloft og eru mjög trúir staðreyndum þó að smáatriðin séu ekki eins.“

Hún vonar að þættirnir verði til þess að umræðan um framsal aflaheimilda verði tekin af alvöru.

Vonar þú að það verði framhald? 

„Já ég er alveg sannfærð um það. Ég sat og skrifaði sjálf ágætis söguþráð í gær sem mér leist mjög vel á en þeir koma örugglega með eitthvað miklu betra.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×