Innlent

Brúskur er nýjasta tískan hjá kindum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Jökull Helgason, sauðfjárbóndi á Ósabakka í Skeiða og Gnúpverjahreppi, sem er að gera skemmtilega tilraun með ræktun á Brúskfé. Hann er mjög ánægður með árangurinn enn sem komið er.
Jökull Helgason, sauðfjárbóndi á Ósabakka í Skeiða og Gnúpverjahreppi, sem er að gera skemmtilega tilraun með ræktun á Brúskfé. Hann er mjög ánægður með árangurinn enn sem komið er. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Brúskfé er nýjasta tískan þegar íslenska sauðkindin er annars vegar en bóndi á Skeiðunum hefur náð góðum árangri með ræktun fjárins. Brúskurinn, sem er hárbrúskur er á hausnum á kindunum en þó ekki á enninu, heldur í hnakkanum.

Í fjárhúsinu á Ósabakka í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hefur Jökull Helgason, fjárbóndi verið að reyna sig áfram eð ræktun á Brúskfé sér og öðrum til ánægju. Árangurinn lætur ekki á sér standa, hann er með nokkrar fallegar brúskindur en brúskarnir sjást oftast best á ferukollóttu fé.

„Þær eru hreinferukollóttar þessar en þá eru þær með genin beggja vegna frá. Það kemur ekki svona góður brúskur nema að það sé ferukollótt í báðum foreldrunum. Maður verður bara að halda áfram og vera með einhvern fjölda til að finna réttu einstaklingana til þess að framrækta og þannig er hægt að ná stofni upp, sem maður er sáttur við, bæði gagnvart gerð og gæðum og svo brúsknum,“ segir Jökull.

En er hann eitthvað að klippa kindurnar svo brúskurinn verði fallegur?

„Nei, nei, þær verða bara svona, ég klippti þær ekkert og nota ekki hársprey,“ segir Jökull hlægjandi og bætir strax við;

„Svo í mars þá klippi ég brúskinn af því hann náttúrulega dettur af og ef ekki þá verður hann að flóka, þannig að það er best að hreinsa um brúskinn í mars og svo kemur nýr brúskur fyrir næsta haust.“

Hér eru þrjár kindur hjá Jökli með myndarlegan brúsk.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Jökull segir ótrúlega gaman að prófa sig áfram í ræktuninni hvort sem það er Brúskfé eða með mismunandi liti á fénu eða eitthvað allt annað.

„Þetta snýst fyrst og fremst um að hafa gaman af þessu, ég er eflaust eitthvað smá skrýtinn en það fylgir bara, þetta er alltaf jafn skemmtilegt, það verður að vera það,“ segir brúskbóndinn á Ósabakka.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×