Innlent

Gylfi bíður eftir uppsögn

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Gylfi Þór hefur staðið vaktina í farsóttahúsunum frá upphafi faraldursins. 
Gylfi Þór hefur staðið vaktina í farsóttahúsunum frá upphafi faraldursins.  Vísir/Vilhelm

Gylfi Þór Þorsteinsson segir að þrátt fyrir að áfram sé töluvert álag á farsóttahúsin þá búist hann við að þeim verði lokað fyrr en síðar. Starfsfólk sé þegar farið að svipast um eftir öðrum störfum. Sjálfur hefur Gylfi verið áberandi í heimsfaraldrinum sem forstöðumaður farsóttahúsanna.

„Um leið og einangrunin verður látin niður falla þá kannski verður ekki þörf fyrir okkur þannig að óneitanlega er starfsfólkið farið að líta í kringum sig eftir öðrum störfum,” segir Gylfi. „Ég bara bíð eftir að heilbrigðisráðherra haldi blaðamannafund og lýsi þessu loknu og þar með er ég rekinn, geri ég ráð fyrir,” bætir hann við og hlær.

Hann segir að nú dvelji 154 á farsóttahúsunum. Þá hafi farsóttahúsið á Akureyri sprengt utan af sér og að þörf sé á að opna annað slíkt til að anna álaginu.

„Norðurlandið hefur verið aðeins eftir á hvað varðar uppgang smita, það er kannski það sem útskýrir þetta helst,” segir Gylfi. Langflestir í farsóttahúsunum eru Íslendingar.

„Það hafa verið að koma upp smit í jaðarhópum á höfuðborgarsvæðinu, til dæmis meðal heimilislausra, sem við höfum verið að sinna - með góðri aðstoð frá Reykjavíkurborg og fíknigeðsviðinu á Landspítalanum og fyrir norðan hafa nemendur á heimavist verið að smitast.”

Afléttingaráætlun stjórnvalda gerir ráð fyrir að reglugerð um einangrun verði afnumin. Heilbrigðisráðherra mat það hins vegar sem svo að það væri ekki tímabært að svo stöddu en að það komi til greina í næstu afléttingum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×