Innlent

Meðalkaupverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 5 milljónir á tveimur mánuðum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Íbúðir sem koma á markað staldra aðeins þar stutta stund og seljast að jafnaði á 20 dögum.
Íbúðir sem koma á markað staldra aðeins þar stutta stund og seljast að jafnaði á 20 dögum. Vísir/Vilhelm

Enn dregur úr fjölda íbúða til sölu en í byrjun febrúar voru þær 1.031 talsins. Um er að ræða 4 prósenta fækkun milli mánaða og um 74 prósent færri íbúðir en þegar mest lét í maí 2020 þegar um það bil 4 þúsund íbúðir voru til sölu.

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fyrir febrúar.  Þar segir að meðalkaupverð hafi hækkað um 5 milljónir króna á höfuðborgarsvæðinu á aðeins tveimur mánuðum.

Það var 63,2 milljónir í október síðastliðnum en 68,2 milljónir í desember.

Árshækkun íbúðaverðs mælist nú 16,6 prósent á landinu öllu en hækkunina leiða sérbýli á höfuðborgarsvæðinu. Íbúðum til sölu heldur áfram að fækka og „birgðatími“ þeirra er sagður 20 dagar.

Framboð af ódýrum íbúðum er sérstaklega lítið en aðeins 26 íbúðir eru til sölu með ásett verð á bilinu 30 til 40 milljónir. 39,6 prósent allra íbúða á landinu seldust yfir ásettu verði, þar af 43,2 prósent íbúða á höfuðborgarsvæðinu.

Í skýrslunni segir að greiðslubyrði óverðtryggðra lána gæti hækkað á næstunni.

„Greiningaraðilar vænta þess að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti í næstu vaxtaákvörðunum peningastefnunefndar. Miðað við lægstu vexti á óverðtryggðum lánum hjá bönkunum er greiðslubyrði lána um 42 þ.kr. fyrir hverjar 10 m.kr. sem teknar eru að láni. Hækki stýrivextir um 0,5-0,75 prósentustig gæti greiðslubyrðin hækkað í 44-47 þ.kr. en það fer þó eftir því að hversu miklu leiti hækkun stýrivaxta skilar sér í hækkun vaxta á íbúðalánum. Greiðslubyrði óverðtryggðra lána gæti því hækkað um allt að 18 þ.kr. á mánuði fyrir heimili sem er með 40 m.kr. íbúðalán.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.