Innlent

Leita í kappi við tímann með kaf­báti og drónum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar kemur kafbát Gavia út í Þingvallavatn.
Séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar kemur kafbát Gavia út í Þingvallavatn. vísir/vilhelm

Leit að þeim fjórum sem voru um borð í flug­vélinni sem fannst í Þing­valla­vatni hófst aftur í morgun. Leitað er á vatninu og við það og nú er sér­að­gerða­sveit Land­helgis­gæslunnar að mæta á svæðið til að leita í því með kaf­báti. Ofsa­veður skellur á við svæðið í nótt.

Þegar kaf­bátur var sendur niður að flaki flug­vélarinnar seinni partinn í gær til að kanna að­stæður nánar kom í ljós að enginn þeirra fjögurra sem höfðu verið um borð í henni væri þar.

Að sögn lög­reglu er ljóst að fólkið hefur komist úr vélinni af sjálfs­dáðum eftir að hún lenti í vatninu en slysstaðurinn er um einn kíló­metri frá landi þar sem styst er.

Gæslan kölluð út

„Það verður mesti þunginn við sunnan­vert vatnið. Það verða göngu­hópar, bátar og drónar. Og þetta fer náttúru­lega svo­lítið eftir veðri,“ segir Elín Jóhanns­dóttir, varð­stjóri hjá lög­reglunni á Sel­fossi.

Sér­að­gerða­sveit Land­helgis­gæslunnar hefur einnig verið kölluð út á staðinn en hún sér­hæfir sig í neðan­sjávar­björgun. Hún mun stýra leit með kaf­bát fyrir­tækisins Gavia líkt og hún hefur gert undan­farna daga.

„Það verður gengið á fæti við bakka vatnsins þarna í Ölfu­s­vatns­vík og svo er náttúru­lega reynt að leita líka úti á vatninu,“ segir Elín.

Lítill veðurgluggi

„Við verðum að nota þann veður­glugga sem við höfum. Mér skilst að veðrið eigi að versna mjög með kvöldinu,“ segir hún.

Gul veður­við­vörun tekur gildi á svæðinu klukkan tvö í nótt vegna suð­austan­storms og hríðar. Við­vörunin verður síðan appel­sínu­gul klukkan fjögur í nótt þegar gert er ráð fyrir ofsa­veðri á svæðinu. Ljóst er að ekki verður leitað við þær að­stæður.

Veður skánar síðan aftur eitt­hvað í skamma stund á morgun áður en gul veður­við­vörun tekur aftur gildi annað kvöld.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.