Fótbolti

Síðasti leikur langafa og alnafna Alberts Guðmundssonar var einmitt á móti Genoa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Guðmundsson og nafni hans og afi þegar hann lék með AC Milan á fimmta áratug síðustu aldar.
Albert Guðmundsson og nafni hans og afi þegar hann lék með AC Milan á fimmta áratug síðustu aldar. Samsett/Getty/timarit.is

Albert Guðmundsson er orðinn leikmaður ítalska félagsins Genoa og mun því spila í sömu deild og langafi hans og alnafni gerði fyrir 73 árum síðan.

Albert Guðmundsson lék með AC Milan í Seríu A tímabilið 1948-49 en hann skoraði þá 2 mörk í 14 leikjum.

Svo skemmtilegt vill til að síðasti leikur Alberts í Seríu A þetta tímabil hans var á móti Genoa 20. apríl 1949.

Leiknum lauk með 2-2 jafntefli og skoraði Svíinn Gunnar Nordahl bæði mörk AC Milan í leiknum.

Albert var þarna í fjögurra manna sóknarlínu AC Milan ásamt Nordahl, Íranum Paddy Sloan og Ítalanum Riccardo Carapellese.

Mörk Albert þetta tímabil komu á móti liðum Atalanta og Modena FC.

Albert var þarna 25 ára gamall og ákvað eftir tímabilið að flytja sig yfir til Frakklands og semja við RC Paris þar sem hann spilaði næstu ár á eftir.

Tímabilið 1948-49 var merkilegt fyrir þær sakir að 4. maí 1949 fórust allir leikmenn Torino í flugslysi þegar liðið var að koma heim úr leik á móti Benfica í Portúgal. Torino var þarna besta lið Ítalíu, hafði unnið þrjá titla í röð og tveimur dögum eftir slysið var þeim afhentur meistaratitilinn fyrir þetta tímabil.

Torino kláraði tímabilið með leikmönnum úr unglingaliði sínu og það gerðu öll hin liðin í deildinni líka í virðingarskyni fyrir minningu leikmannanna sem fórust.

Albert spilaði því ekki í síðustu fjórum umferðum deildarinnar þetta tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×