Innlent

„Augljóslega er þetta ekki gott“

Snorri Másson og Heimir Már Pétursson skrifa
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. Vísir/Vilhelm

Forsætisráðherra segir stefnt að því að stækka ákveðnar virkjanir sem þegar eru starfandi á Íslandi. Innviðaráðherra segir svíða að orkubú Vestfjarða sé að kaupa olíu til kyndingar fyrir fleiri hundruð milljónir þar sem endurnýjanleg orka hefur verið skert.

Það er lítið vatn í uppistöðulónunum og þaðan af minni raforku til að dreifa úr virkjunum landsins. Þetta hefur haft í för með sér að fjöldi aðila sem hefur samið þannig við Landsvirkjun að skerða megi orkuna til þeirra þegar hún er af skornum skammti, er að brenna olíu til að knýja starfsemi sína. 

Loðnubræðslur eru þar á meðal og nú þurfa Vestfirðingar að sæta skerðingum til kyndingar á heimilum. Þá kemur fram í Morgunblaðinu að komið geti til skerðingar á orku til reksturs ferjunnar Herjólfs.

Óviðunandi ástand

Forsætisráðherra segir ýmislegt þurfa að gera í málaflokknum. Einfalda regluverk um breytingar á flutningskerfi orku, enda snúist þetta ekki bara um virkjanir, heldur einkum flutningskerfið.

„Síðan veit ég að á þingmálaskrá umhverfis- og loftslagsráðherra er frumvarp sem snýst um það að það verði hægt að einfalda ferla við að stækka núverandi virkjanir, sem ég held að sé mjög skynsamleg ráðstöfun,“ segir Katrín.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir: „Ég held að það hafi komið nokkuð kröftugar í bakið á okkur að við höfum gert minna á síðastliðnum árum og umræðan hefur verið þannig að það hafi ekki þurft. En svo kemur í ljós þegar veðráttan er óhagstæð að orkuþörfin er fyrir hendi og hún vex hratt. Þetta er auðvitað óviðunandi ástand.“

Birgir Gunnarsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar segir í Morgunblaðinu að ekki sé hægt að bjóða Vestfirðingum upp á þessi skilyrði, að kyndingin muni kosta um 70.000 krónur á hvern íbúa næstu fjóra mánuði.

„Augljóslega er þetta ekki gott. Eins og ég segi hefur ráðherrann aðgerðir í undirbúningi bæði til lengri tíma og skemmri tíma, en þar þarf auðvitað að bæði að horfa á flutningskerfið sjálft, lagaumhverfið og síðan framleiðslu,“ segir Katrín Jakobsdóttir.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×