Innlent

Efna til samkeppni um tákn fyrir fjögur hýryrði

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
„Á íslensku má alltaf finna svar“ og það á ekki síður að eiga við um táknmál eins og talmál.
„Á íslensku má alltaf finna svar“ og það á ekki síður að eiga við um táknmál eins og talmál.

Samtökin '78 blása til leitar að táknum fyrir fjögur hinsegin orð í samstarfi við málnefnd um íslenskt táknmál. Dómnefnd mun velja úr innsendum tillögum en niðurstöður verða tilkynntar 11. febrúar næstkomandi, á degi íslensks táknmáls.

Orðin fjögur eru „eikynhneigð“, „kynsegin“, „kvár“ og „stálp“.

Í tilkynningu frá Samtökunum '78 segir að „Hýryrði„ hafi á síðustu árum verið reglulegur viðburður. Um sé að ræða samkeppni þar sem auglýst hafi verið eftir íslenskum orðum fyrir hugtök sem þegar eru til á erlendum tungumálum og orðum sem hefur vantað í tungumálið.

Eikynhneigð og kvár eru meðal nýrra hýryrða.

„Í ár viljum við beina sjónum að öðru opinberu tungumáli á Íslandi, íslensku táknmáli, og höfum við gengið til samstarfs við málnefnd um íslenskt táknmál um að halda Hýr tákn. Í þetta fyrsta skipti sem þessi nýyrðasamkeppni er haldin verður leitað að táknum fyrir fjögur hinsegin orð: eikynhneigð, kvár, stálp, og kynsegin,“ segir í tilkynningunni.

Tekið verður á móti tillögum á myndbandsformi en fulltrúi málnefndar mun endursegja táknin á myndbandi sem berast mun dómnefnd til að tryggja nafnleynd höfunda táknanna. Dómnefndin verður skipuð fulltrúa Félags heyrnarlausra, fulltrúa málnefndar um íslenskt táknmál og einstakling sem tilheyrir bæði hinsegin og döff samfélaginu.

Hýryrði

Eikynhneigð:

Eikynhneigt fólk laðast lítið eða ekkert að öðru fólki kynferðislega.

Kynsegin:

Þau sem eru kynsegin upplifa sig utan við hina hefðbundnu kynjatvíhyggjuskiptingu í karla og konur. Sum upplifa sig bæði karlkyns og kvenkyns eða flæðandi þar á milli, sum sem hvorki karl né konu, og önnur upplifa ekki að þau hafi eitthvað ákveðið kyn.

Kvár:

Orð yfir kynsegin manneskju, sambærilegt orðunum „karl“ og „kona“.

Stálp:

Orð yfir kynsegin börn, sambærilegt orðunum „strákur“ og „stelpa“.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.