Innlent

Neita sér um að fara til tann­læknis

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Rétt tæpur þriðjungur launafólks sem tók þátt í könnuninni segist hafa neitað sér um tannlæknaþjónustu því það hefði ekki efni á henni.
Rétt tæpur þriðjungur launafólks sem tók þátt í könnuninni segist hafa neitað sér um tannlæknaþjónustu því það hefði ekki efni á henni. vísir/vilhelm

And­legri líðan launa­fólks hefur hrakað hratt síðasta árið og um þriðjungur þess er nú talinn búa við slæma and­lega heilsu. Fjöldi þeirra hefur þurft að neita sér um einhvers konar heilbrigðisþjónustu vegna fjárhagsstöðu sinnar. 

Þetta eru niður­stöður viða­mikillar könnunar sem gerð var meðal fé­lags­manna Al­þýðu­sam­bandsins (ASÍ) og BSRB. Þær voru kynntar á fundi fé­laganna í dag.

Sam­bæri­leg könnun var gerð fyrir ári síðan en þá reyndust um tveir af hverjum tíu fé­lags­mönnum vera með slæma and­lega heilsu.

Í ár voru þeir mun fleiri, næstum þriðjungur allra fé­lags­manna, ef marka má könnunina.

Hlutfall svarenda sem greindust með slæma andlega líðan.vísir

„Við mældum þetta í fyrsta sinn fyrir ári síðan, and­lega líðan, og þá kom okkur á ó­vart, niður­stöðurnar að hún var slæm. Hún hefur versnað núna,“ segir Drífa Snæ­dal, for­seti ASÍ.

„Aukið álag út af Co­vid verður þess valdandi að það er verri and­leg líðan að mínu mati.“

Drífa segir að könnunin endurspegli raunveruleika launafólks. Hún verði höfð til hliðsjónar við komandi kjarasamningsgerð. vísir/arnar

Og sú á­lyktun er ekki úr lausu lofti gripin hjá Drífu því að helmingur þeirra níu þúsund sem tóku þátt í könnuninni finnur fyrir meira á­lagi í starfi vegna heims­far­aldursins. Könnunin var opin fyrir félagsmenn ASÍ og BSRB en þeir eru um 150 þúsund talsins. 

Fara ekki til tannlæknis

Könnunin sýnir einnig að það er að stórum hluta til sami hópur sem kemur verst út úr þeim þáttum sem kannaðir voru. Það eru helst inn­flytj­endur og ein­stæðar mæður.

„Við sjáum skýr tengsl á milli fjár­hags­erfið­leika og hvernig þér líður and­lega og hvort að þú hafir þá efni á að sækja þér heil­brigðis­þjónustu,“ segir Sonja Ýr Þor­bergs­dóttir, for­maður BSRB.

Sonja Ýr vill að viss heilbrigðisþjónusta sé meira niðurgreidd fyrir þá sem geta ekki notið hennar í dag.vísir/arnar

Í könnuninni kom nefni­lega fram að um helmingur launa­fólks hefði neitað sér um ein­hvers konar heil­brigðis­þjónustu vegna þess að það hefur ekki efni á henni.

Þar nefna lang­flestir tann­lækna­þjónustu en þrír af hverjum tíu hafa neitað sér um hana. Því næst koma sál­fræði­þjónusta, sem um fjórðungur hefur neitað sér um og sjúkra­þjálfun, sem um 15% hafa neitað sér um.

Rúm 30 prósent sem svöruðu könnuninni hafa neitað sér um tannlæknaþjónustu.vísir

Könnunin mun hafa áhrif á komandi kjarasamningsviðræður

En hvað er hægt að gera í þessu? Krefjast verka­lýðs­fé­lögin þess að þessi þjónusta verði meira greidd niður af ríkinu?

„Ég held að það þurfi að­gerðir inni á vinnu­stöðum og í sam­fé­laginu öllu til að tryggja að­gengi að þessari þjónustu fyrir þá sem þurfa á að halda sem að sömu­leiðis væri meira niður­greidd en hún er í dag,“ segir Sonja Ýr.

Niður­stöður könnunarinnar munu þá hafa á­hrif á kjara­samnings­gerð næsta vetur.

„Það er okkar hlut­verk í kjara­samningum að birta raun­veru­leika launa­fólks,“ segir Drífa.

„Og niður­staðan þarna segir mér að stór hluti af næstu kjara­samningum verður tekinn í sam­hengi við heil­brigði og hús­næðis­mál.“


Tengdar fréttir

Þriðjungur vinnandi fólks á erfitt með að ná endum saman

Tæplega þriðjungur vinnandi fólks glímir við erfiða fjárhagsstöðu og á erfitt með að ná endum saman. Þetta er niðurstaða nýrrar könnunar Vörðu - Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins, en hún sýnir að staðan hafi versnað mikið síðasta árið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.