Innlent

Tæplega 3500 börn á aldrinum 5-11 ára greinst en ekkert lagst inn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá bólusetningu barna sem farið hefur fram um allt land á nýju ári. Á höfuðborgarsvæðinu er bólusett í Laugardalshöll.
Frá bólusetningu barna sem farið hefur fram um allt land á nýju ári. Á höfuðborgarsvæðinu er bólusett í Laugardalshöll. Vísir/Vilhelm

Hér á landi hafa 6.578 börn á aldrinum 0–16 ára greinst með COVID-19 frá upphafi faraldursins til 2. janúar 2022, þar af eru 3.449 börn á aldrinum 5–11 ára.

Þetta kemur fram í svari Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Diljár Mistar Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um Covid-19 smit barna hér á landi.

Sex börn á aldrinum 0–16 ára hafa verið lögð inn á sjúkrahús hér á landi vegna COVID-19 frá upphafi faraldursins til 2. janúar 2022. Ekkert barn á aldrinum 5–11 ára hefur hins vegar verið lagt inn á sjúkrahús.

Frá upphafi faraldursins til 2. janúar 2022 hafa tvö börn á aldrinum 0–16 ára þurft á gjörgæslustuðningi að halda vegna smitsins en ekkert barn á aldrinum 5–11 ára.

Alls hafa 17 börn á aldrinum 0–16 ára fengið rauða merkingu í eftirliti COVID-göngudeildar, sem þýðir mjög alvarleg veikindi sem þarfnast athugunar læknis, þar af fjögur sem voru á aldrinum 5–11 ára. Á sama tíma hafa 308 börn á aldrinum 0–16 ára fengið gula merkingu í eftirliti COVID-göngudeildar sem þýðir versnandi veikindi, þar af 143 sem voru á aldrinum 5–11 ára.

Við þetta má bæta að frá og með deginum í dag verða munnstrokur látnar duga í PCR-prófum hjá börnum fædd árið 2013 og síðar. Er þetta gert til að bæta upplifun barna og vegna mikils álags en upp í fimm sinnum lengri tíma tekur að taka PCR-sýni af börnum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×