Þetta kemur fram í svari Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Diljár Mistar Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um Covid-19 smit barna hér á landi.
Sex börn á aldrinum 0–16 ára hafa verið lögð inn á sjúkrahús hér á landi vegna COVID-19 frá upphafi faraldursins til 2. janúar 2022. Ekkert barn á aldrinum 5–11 ára hefur hins vegar verið lagt inn á sjúkrahús.
Frá upphafi faraldursins til 2. janúar 2022 hafa tvö börn á aldrinum 0–16 ára þurft á gjörgæslustuðningi að halda vegna smitsins en ekkert barn á aldrinum 5–11 ára.
Alls hafa 17 börn á aldrinum 0–16 ára fengið rauða merkingu í eftirliti COVID-göngudeildar, sem þýðir mjög alvarleg veikindi sem þarfnast athugunar læknis, þar af fjögur sem voru á aldrinum 5–11 ára. Á sama tíma hafa 308 börn á aldrinum 0–16 ára fengið gula merkingu í eftirliti COVID-göngudeildar sem þýðir versnandi veikindi, þar af 143 sem voru á aldrinum 5–11 ára.
Við þetta má bæta að frá og með deginum í dag verða munnstrokur látnar duga í PCR-prófum hjá börnum fædd árið 2013 og síðar. Er þetta gert til að bæta upplifun barna og vegna mikils álags en upp í fimm sinnum lengri tíma tekur að taka PCR-sýni af börnum.