Innlent

Hinseginvika í Árborg

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Dagbjört Harðardóttir, forstöðumaður Frístundahúsa Árborgar, sem er meðal annars í forsvari fyrir Hinseginvikuna í Sveitarfélaginu Árborg.
Dagbjört Harðardóttir, forstöðumaður Frístundahúsa Árborgar, sem er meðal annars í forsvari fyrir Hinseginvikuna í Sveitarfélaginu Árborg. gpp

Hinseginvika verður haldin í fyrsta skipti í Sveitarfélaginu Árborg í næstu viku. Tilgangur vikunnar er að auka fræðslu og skapa umræður, sem tengjast hinseginmálum. Sérstakar hinseginkökur verða bakaðar.

Vikan hefst formlega á mánudaginn og stendur til 23. janúar. Það er forvarnarteymi Árborgar í samvinnu við sveitarfélagið, sem standa að vikunni.

Dagbjört Harðardóttir, forstöðumaður Frístundahúsa Árborgar er í forsvari fyrir Hinseginvikuna.

„Vikan er haldin til að auka fræðslu og sýnileika. Við viljum svo skapa umræður og veita stuðning til þeirra, sem tengja við hinseginmálefni á einn eða annan hátt,“ segir Dagbjörg og bætir við.

Fjölbreytt dagskrá verður í boði alla vikuna þó Covid hafi þar einhver áhrif.

„Það er kannski helst að nefna að við verðum með fræðslu frá Samtökunum 78. Sú fræðsla fer fram á Teams og er opin öllum og hægt að sjá upplýsingar um viðburðinn á heimasíðu Árborgar. Við ætlum líka að vera mjög virk á Instagrami sveitarfélagsins þar sem verður hægt að finna alls konar áhugavert efni um málefnið. Við verðum líka með fræðslu inn í grunnskólunum og leikskólarnir ætla að vinna verkefni tengt hinseginleikanum og svo verða litlir viðburðir fyrir unglingana í félagsmiðstöðinni og svona fleira í þeim dúr,“ segir Dagbjört.

Hinseginvikan fer fram dagana 17. til 23. janúar 2022.Aðsend

Dagbjört segir að eitthvað af fyrirtækjum ætli að vera með í Hinseginvikunni, til dæmis GK bakarí á Selfossi, sem ætlar að baka í regnbogalitunum, 1905 blómahús ætlar að selja blómvendi í regnbogalitum og svo ætla fyrirtæki í nýja miðbænum að taka virkan þátt í vikunni. Þá ætlar bókaútgáfan Salka og Íslandsbanki að gefa öllum börnum í fyrsta bekk bókina „Vertu þú“.

„Svo ætlum við að hvetja alla íbúa sveitarfélagsins að klæða sig í regnbogalitunum miðvikudaginn 19. janúar,“ segir Dagbjört.

En hvað með fordóma fyrir hinseginmálum, finnur Dagbjört og hennar starfsfólk enn þá fyrir þeim?

„Já, auðvitað eru þeir alveg í samfélaginu og það er ástæðan fyrir því að svona vikur eru svo mikilvægar. En sem betur fer er nú gleðin meira ríkjandi.“

Merki Árborgar í regnbogalitunum.Aðsend


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.