Innlent

Boðar mesta upp­byggingar­skeið í sögu borgarinnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Höfða í dag, þar sem aðalskipulagið var undirritað.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Höfða í dag, þar sem aðalskipulagið var undirritað. Vísir/Sigurjón

Reykjavík tekur miklum breytingum í aðalskipulagi til ársins 2040, sem undirritað var í Höfða í dag. Á grundvelli þessa skipulags verður auðveldlega hægt að byggja 1200 íbúðir á ári, að sögn borgarstjóra.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sést hér undirrita aðalskipulagið, hnausþykkt plagg, heilar 254 blaðsíður, en það tekur svo gildi strax á næstu dögum.

Á meðal þess sem fest er í sessi með undirritun aðalskipulagsins er nýr íbúðareitur við KR-heimilið, flugvöllur í Vatnsmýri til 2032 og uppbygginarreitur við Sæbraut, sem á að setja í stokk.

Allt að 2000 íbúðir á ári

Reykjavíkurborg

Yfirlit yfir helstu breytingar sem gera á í borginni næstu átján árin sést á kortinu hér fyrir ofan en ljóst er að þær eru allverulegar. Dagur segir að með undirrituninni í dag sé nú alveg ljóst hvar megi byggja - og koma til móts við húsnæðisskort. Hann bendir á að á meðalári hafi hingað til verið byggðar 600 íbúðir í Reykjavík. Hann boðar nú mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar.

„Þá getum við á grundvelli þessa aðalskipulags auðveldlega byggt um 1200 íbúðir á ári og jafnvel allt að 2000, allt eftir því hvað markaðurinn í raun, og húsnæðismarkaðurinn kallar á,“ segir Dagur.

Spenntastur fyrir Borgarlínunni

Hvenær verður byrjað að ráðast í þetta allt saman? Það er ekki nóg að skrifa undir plögg, það þarf eins og þú segir að láta verkin tala.

„Ja, ein stærsta deiliskipulagsáætlun síðustu ára mun öðlast gildi samhliða þessu, sem er nýja byggðin uppi á Ártúnshöfða. Það verður eitt stærsta uppbyggingarsvæði okkar á næstu árum en líka reitir eins og Orkureiturinn, Heklureiturinn og fleiri reitir.“

Þá er borgarstjóri ekki í vafa um hvaða einstaka verkefni aðalskipulagsins hann er spenntastur fyrir.

„Ég myndi segja að Borgarlínuframkvæmdin sé lykillinn að því að þetta gangi upp fyrir alla, gangi upp fyrir samgöngurnar og umferðina,“ segir Dagur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.