Erlent

Aldrei meira barnaníðsefni fundist á netinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Barnaníðingar stunda það að fá börnin sjálf til að búa til kynferðislegt efni og deila því.
Barnaníðingar stunda það að fá börnin sjálf til að búa til kynferðislegt efni og deila því.

Bresku samtökin Internet Watch Foundation segja árið 2021 hafa verið það versta frá upphafi þegar kemur að barnaníð á netinu. Magn efnis þar sem börn á aldrinum sjö til tíu ára séu misnotuð hafi þrefaldast.

IWF berst árlega gríðarlegur fjöldi tilkynninga um barnaníðsefni frá almenningi, lögreglu og fleirum, sem farið er yfir og í fyrra reyndust 250 þúsund netslóðir sem samtökin skoðuðu innihalda slíkt efni, samanborið við 153 þúsund netslóðir árið 2020.

Þá varð veruleg aukning á efni þar sem börn voru fengin til að búa til og deila kynferðislegu efni en þar var gríðarleg fjölgun í efni þar sem börnin voru á aldrinum sjö til tíu ára.

Forsvarsmenn IWF segja mögulega mega rekja þróunina til sóttvarnaaðgerða vegna kórónuveirufaraldursins, þar sem milljónir barna og ungmenna hafi mátt dúsa heima og þess vegna varið meiri tíma en venjulega á netinu. Þá aukist líkurnar á því að þau lendi í gildru glæpamanna sem fái þau til að búa til og deila efni, sem þeir deili svo áfram.

IWF fann árið 2021 um það bil 182 þúsund tilvik þar sem um var að ræða efni sem börnin höfðu sjálf búið til; myndir og myndskeið. Af þessum áttu sjö til tíu ára börn í hlut í um 27 þúsund tilvikum, sem er þrefaldur fjöldinn árið áður. Stærstur hluti efnisins sýndi hins vegar börn á aldrinum elleftu til þrettán ára.

Susie Hargreaves, framkvæmdastjóri IWF, segir barnaníðinga freista þess í stórum stíl að koma sér inn undir hjá börnum og fá þau til að búa til og deila kynferðislegu efni. „Í mjög mörgum tilvikum á kynferðislega misnotkunin sér stað í svefnherbergjum barna á heimilum þar sem foreldrarnir eru algjörlega óafvitandi um hvað ókunnugir með nettengingu eru að gera börnunum þeirra,“ segir Hargreaves.

Guardian greindi frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×