Innlent

Guð­mundur Árni snýr aftur í pólitík eftir sex­tán ár í utan­ríkis­þjónustunni

Heimir Már Pétursson og Viktor Örn Ásgeirsson skrifa
Guðmundur Árni sækist eftir því að leiða lista Samfylkingarinnar í komandi bæjarstjórnarkosningum í Hafnarfirði.
Guðmundur Árni sækist eftir því að leiða lista Samfylkingarinnar í komandi bæjarstjórnarkosningum í Hafnarfirði. Vísir/Vilhelm

Guðmundur Árni Stefánsson, sendiherra, fyrrverandi bæjarstjóri í Hafnarfirði og ráðherra fyrir Alþýðuflokkinn, sækist eftir því að leiða lista Samfylkingarinnar í Hafnarfirði fyrir kosningarnar í maí.

Frá þessu greinir Guðmundur Árni í færslu á Facebook síðu sinni nú. Það er afar sjaldgæft, ef ekki óþekkt, að stjórnmálamenn sem farið hafa til starfa í utanríkisþjónustunni snúi aftur fremst á svið stjórnmálanna eins og Guðmundur Árni sækist nú eftir að gera. 

Guðmundur Árni segir í færslunni að margir jafnaðarmenn í Hafnarfirði hafi lýst yfir stuðningi við að hann byði sig fram til forystu í bænum. Samfylkingin hafi verið í minnihluta í Hafnarfirði síðast liðin átta ár þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi ráðið ríkjum. 

„Það er mikilvægt að allir Hafnfirðingar geti verið stoltir af bænum sínum. Það kallar á ný viðbrögð, opið stjórnkerfi og virka aðkoma bæjarbúa að endurbótum,“ segir Guðmundur í færslunni og bætir við að hann muni beita sér af fullum krafti og eftirvæntingu. 

Var vinsæll bæjarstjóri en sagði af sér ráðherraembætti 

Guðmundur Árni var í bæjarstjórnarmálum í tólf ár og þar af sjö ár bæjarstjóri fyrir Alþýðuflokkinn í Hafnarfirði. Hann var varaþingmaður Alþýðuflokksins frá árinu 1991 til 1993 og þingmaður fyrst fyrir Alþýðuflokkinn og síðan Samfylkinguna frá 1993 til 2003. 

Hann var félagsmálaráðherra í samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks frá árinu 1993 til 1994. Hann neyddist til að segja af sér ráðherraembætti hinn 11. nóvember 1994 eftir útkomu skýrslu Ríkisendurskoðunar um embættisverk hans sem aðallega snerist um skipan hans á mönnum í embætti. 

Eins og áður sagði sat hann þó á þingi í níu ár eftir það bæði fyrir Alþýðuflokk og Samfylkinguna. Síðast liðin sextán ár hefur hann gegnt embætti sendiherra víða en hefur nú óskað eftir því að koma heim frá Winnipeg þar sem hann er sendiherra af persónulegum ástæðum. 

Facebook færsluna má lesa í heild sinni hér að neðan.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.