Innlent

Stefnir í litla endur­nýjun í for­ystu flokkanna í borginni

Snorri Másson skrifar
271652539_10227659462938982_4007270413461879381_n
Vísir/Egill

Það verður mikið um kunnugleg andlit í baráttunni um borgina þegar kosið verður til sveitarstjórna eftir 125 daga. Dagur B. Eggertsson tilkynnti í morgun að hann ætlaði að taka slaginn - og láta reyna á þriðja kjörtímabilið sem borgarstjóri.

„Ef ég hefði ekki skynjað ríkan stuðning eða þá efasemdir um að það væri þörf á minni reynslu og þeirri framtíðarsýn og ástríðu sem ég hef fyrir þessu, hefði ég ekki hikað við að láta gott heita. En ég ætla að taka slaginn,“ sagði Dagur í samtali við fréttastofu.

Nú þegar ákvörðun borgarstjóra liggur fyrir er ljóst að baráttan um borgina er hafin, sem Dagur telur þó munu verða stutta og snarpa.

Mikill meirihluti forystufólks flokkanna sem sitja í borgarstjórn ætlar áfram að gefa kost á sér. Hjá Viðreisn vill Þórdís Lóa Þórhallsdóttir áfram leiða listann og Pawel Bartoszek ætlar líka áfram að gefa kost á sér.

Á félagsfundi Viðreisnar í Reykjavík sem lauk rétt í þessu var samþykkt, nær samhljóða, að prófkjör yrði haldið við uppröðun á framboðslista Viðreisnar í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningum í vor.

Líf Magneudóttir, eini borgarfulltrúi Vinstri grænna, ætlar áfram að leiða listann njóti hún stuðnings félaga sinna. 

Vigdís Hauksdóttir stefnir á að fara fram á ný fyrir Miðflokkinn þótt hún taki vissulega fram í samtali við fréttastofu að vika sé langur tími í pólitík. 

Kolbrún Baldursdóttir fulltrúi Flokks fólksins vill verða oddviti flokksins.

Dóra Björt Guðjónsdóttir sem var oddviti Pírata 2018 hefur ekki gefið upp hvort hún haldi áfram en Alexandra Briem staðfestir að hún vilji sannarlega fara aftur fram. 

Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og oddviti, er enn óákveðin um þátttöku í komandi borgarstjórnarkosningum.Aðsend

Sanna Magdalena Mörtudóttir vill áfram leiða Sósíalistaflokkinn. 

Loks er það Hildur Björnsdóttir sem er enn sem komið er sú eina sem gefið hefur út að hún sækist eftir oddvitasæti sjálfstæðismanna í borginni, en síðast var hún í öðru sæti á eftir Eyþóri Arnalds.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×