Innlent

Aðgerðastjórn virkjuð og um 70 útköllum sinnt vegna foktjóns

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Eins og stendur er aðeins í gildi gul veðurviðvörun fyrir miðhálendið.
Eins og stendur er aðeins í gildi gul veðurviðvörun fyrir miðhálendið. Vísir/Vilhelm

Aðgerðastjórn var virkjuð um klukkan 22.45 í gærkvöldi vegna foktilkynninga en þrátt fyrir viðvaranir í fjölmiðlum í gær um yfirvofandi veðurofsa fóru viðbragðsaðilar í fjölda útkalla.

Lögregla, slökkvilið og björgunarsveitir sinntu um 70 verkefnum frá þeim tíma og til klukkan 4 í morgun. Útköll voru meðal annars vegna þakplata, klæðninga og vinnupalla sem voru að fjúka. Einnig vegna kerra og hjólhýsa, partýtjalds sem var komið í næsta garð og svo framvegis, segir í tilkynningu frá lögreglu.

Um klukkan 3.30 í nótt barst lögreglu einnig tilkynning um mann sem lá á gangstétt í póstnúmerinu 105. Reyndist hann hafa fokið í rokinu og kvartaði um verk í annarri hendinni. Var hann fluttur á Landspítala.

Lögregla sinnti einnig útköllum vegna manna í annarlegu ástandi í sitthvoru hverfinu. Um ítrekaðar kvartanir var að ræða vegna beggja manna en annar þeirra hafði ógnað fólki á meðan hinn var að valda ónæði. Báðir voru vistaðir í fangageymslu.

Þá var tilkynnt um líkamsárás í miðborginni. Þar hafði maður verið kýldur í andlitið og laminn í höfuðið með síma. Árásarmaðurinn var farinn af vettvangi en árásarþoli fluttur á Landspítala þar sem saumuð voru sex spor í höfuð hans.

Náðir þú myndum eða myndböndum af óveðrinu? Endilega sendu okkur myndir eða myndbönd á tölvupóstfangið ritstjorn@visir.is.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×